sunnudagur, 29. september 2013

Grátur og gnístran tanna.

Þessa dagana ber ég á mér ca 10 kg af bjúg (eða það er það sem ég hef bætt á mig síðan 10. maí) en það er kannski ekki bara allt bjúgur... heldur aukinn fitu og vatnsforði á líkamanum á kostnað vöðvamassa (já hef alltaf verið svo stælt :-) ) Ég er búin að missa alveg ótrúlega mikinn styrk og á orðið erfitt með að rétta úr mér t.d. ef ég krýp eða beygi mig í hnjánum. Eins á ég erfitt með að nota hendurnar þar sem það er ótrúlega lítill styrkur orðinn í þeim líka. Ég fann þetta mjög greinilega þegar ég var í réttinni og var að príla yfir réttarvegginn og ég bara varla komst upp og yfir. Eins og þetta er sárt að finna þá er jafnvel ennþá sárara að vita að þetta hefði ég aldrei látið gerast ef ég hefði við það ráðið. Þar sem minnstu átök í sumar hafa kostað ótal hjartaslög og loftleysi í vöðvum vegna þessarar blóðþurrðar. Það er líka svo mikill vanmáttur í þeirri hugsun að eiga eftir að vinna upp fyrra form þegar maður veit ekki neitt um það hvert framhaldið er og verður. Þessa dagana ber ég líka færri höfuðhár en mikið af öðrum aukahárum. Það er einhvern veginn eins og þessir sterar geri allt öfugt í líkamanum. Þeir eiga auðvitað að minnka bólgu sem er líklega það sem m.a. þarf til að laga þessa rauðkornaeyðingu og laga ónæmiskerfið. En að sama skapi þá gæti ég komist á safn sem "The bearded lady" og væri fínt eintak til sýnis sem kona með hnúð á bakinu. Ég má svo auðvitað ekki gleyma því að ég man ekki neitt... get ekki neitt... og finn ekki neitt..... nema kannski pirring..... og líður oft eins og zombie ráfandi um án takmarks og löngunar. Jú og þegar ég finn löngun til að gera eitthvað þ.e. það kemur heil hugsun þá kemur lamandi framkvæmdaleysi yfir mig og ég jafnvel "nenni" ekki að tala um það við neinn.  Það er líka einhvern veginn lamandi að vita að eftir "betri dag" (sem alveg gerist) þá kemur "verri dagur" og þessir betri dagar verða pínu akkilesarhælar.  Í gærkvöldi sofnaði ég "undir eins" en í kvöld vaki ég og vaki (sem er í raun eðlilegra ástand) og kannski það eina jákvæða við að vera vakandi lengur frameftir er að steraþokan er aðeins minni og ég get aðeins skipulegt komandi dag eða jafnvel daga.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli