föstudagur, 20. september 2013

Vika frá Mabthera

Komin vika frá því að ég fór í síðustu lyfjagjöfina og allt er heldur að mjakast uppávið. Hemóglóbíngildi síðast miðvikudag 123 og mátti minnka sterana niður í 25mg í dag. Ræddi ýmislegt við Sigurð í gær m.a. að ég fæ að láta mæla sykurgildi og skjaldkirtilshormón í næstu blóðprufu. Hvað kemur út úr því kemur svo bara í ljós. Fór svo til Mikka í gær (fyrsta skipti síðan í júní/júlí ca). og ég held að hann hafi ekki oft séð svona "hump back" nema þá á þeim dýrum sem eru með "hump" eða svona hnúð á bakinu. En hann tók mjög laust á mér sem var svosem ágætt... ég fékk samt alveg hausverk í gærkvöldi.
Nú pabbi og Helga komu heim í fyrrakvöld okkur til mikillar ánægju. Enda í nógu að snúast og stússast við að afhenda þeim lyklavöldin að hestamennsku, hesthússtússi, heyskap og skítmokstri auk alls hins :-)  En eins og allir vita þá er þetta samt búið að vera ótrúlega góður og skemmtilegur tími sem við vorum "bústjórar" og eigin yfirmenn í þeirra fjarveru. Annað stórmerkilegt hefur svosem ekki gerst, en ég reyndar labbaði upp í hesthús og aftur niðureftir í fyrradag ásamt Hannesi. það tók nú aðeins á. Og svo labbaði ég úr hesthúsinu í dag og niðureftir með hesta ásamt pabba. Svo ég er nú alveg aðeins byrjuð að geta hreyft mig en reyndar fer ég ekki hratt yfir en kemst þó. Mikki sagði líka að ég ætti endilega að kíkja við í salinn hjá honum og lyfta pínulítið og teygja þegar ég vildi og gæti. Svo að kannski ég fari bara að massast upp :-) og þá líka missa eitthvað af þessum sterabjúg - eða ég vona allavega að það gerist eftir því sem ég get minnkað sterana á næstu vikum. :-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli