föstudagur, 18. nóvember 2016

18.11.2016

Ég var að rúlla aðeins yfir þetta blog hérna... meiri endemis vitleysan sem rúllar uppúr manni. En það verður bara að vera svo..... Það er nú bara allt gott að frétta. Ég er búin að laga neglurnar sem ég gerði um daginn og þarf að fara að laga aftur. Svo var færður eitt stykki veggur uppi í hesthúsi, báðir strákarnir eru búnir að eiga afmæli, annar 18 og hinn 14. Hannes vinnur og vinnur og ég læri og læri. Þetta er svona í grófum dráttum það sem er búið að gerast síðan síðast. Ég var reyndar búin að hugsa einhvern voðalega djúpan pistil sem ég ætlaði að skrifa hérna inn.. en nú er hann bara alveg gleymdur í hausnum á mér og líklega er það bara VEL haha. Við fórum í Hjartavernd við Hannes og vorum að fá út úr öllum prófum hjá þeim. Ég er bara nákvæmlega á pari við konu á mínum aldri í öllum kólesteról, og þríglýseríðum og fl. gildum sem mæld voru. En skv. reiknilíkani þá á ég samt að vera 10 kg léttari. Það hefur nú alltaf verið á minni stefnuskrá að vera það, en þrátt fyrir allar góðar áætlanir og líkamsræktartilburði, þá burðast ég enn með þessi auka 10 kíló. Ég þyrfti líklega að vera göldrótt til að ná þeim af mér. Tala nú ekki um þessa dagana þegar ég hreyfi ekki legg né lið heldur sit á rassgatinu og reikna eins og enginn sé morgundagurinn.  Jæja.. það líður annars að jólum, já það líður bara ansi hratt að jólum. Ég ætla mér ekki að vera á seinasta snúningi með eitt eða neitt þessi jólin OG HANA NÚ

sunnudagur, 9. október 2016

08.10.016

Já bara á meðan ég man... ég er nýbúin í blóðprufu og fékk svo glimrandi tölu í hemóglóbíninu.. alveg eins og að hafa unnið í happadrætti. En tala var 133... sem er sú allra hæsta tala sem ég hef mælst í síðan í upphafi veikindanna. Eðlilegt hgl er á milli 120-140 hjá konum.. aðeins hærra hjá körlum. Þessi tala er bara svo mikill sigur fyrir mig!!!!!
En nóg um það..... 7,9,13.... ég ætla að halda mig við þessa tölu í framtíðinni :-)

Annað er svo sem allt gott að frétta. Ég er búin að reikna og reikna og reikna og reikna... vona svo innilega að með því að halda því áfram nái ég þessum blessaða stærðfræðiáfanga og að ég muni aldrei aldrei aldrei aftur þurfa að læra stærðfræði
Og eitt enn... ég dró fram nagladótið mitt í morgun.. hef ekki gert neglur síðan fyrir 4 árum síðan.. eða ca það... það var í mestu allt í lagi með gelið, svo ég skellti á mig nöglum. Gaman að rifja upp handtökin.

mánudagur, 26. september 2016

26.09.2016-2

Ég var sennilega ekki alveg búin að klára síðasta tímabil alveg hérn áðan !!! Það er ýmislegt skemmtilegt búið að gerast síðan síðast... þrátt fyrir að þetta blog hafi kannski aðallega átt að vera til þess að fylgjast með framgöngu sjúkdóms míns... ef sjúkdóm er hægt að kalla þessa síðustu mánuði, ár og já daga. Hvernig sem gengur með þennan sjúkdóm þá hef ég samt reynt að lifa lífinu lifandi og vonandi hefur þessi sjúkdómur ekki lengur þetta ægisvald yfir mér eins og var sl. ár. En engu að síður vomir þetta yfir mér og minni fjölskyldu allri eins og kannski pínu dómur. Það er bara engin leið til að segja að þetta sé búið eða hætt eða komið. Mér finnst auðvitað nóg komið og eins allri fjölskyldunni. Það er jú spurning hvað er hægt að leggja á þennan frábæra hóp fólks sem ég get og á að kalla fjölskyldu og vini. En nú er þetta svona að það er bara ekkert hægt að segja.. bara bíða og vona að þetta sé að mestu liðið hjá og muni aldrei koma aftur. Ég veit reyndar mjög vel að ég er ekki besti kandídatinn til þess að hegða mér eins og "sjúklingur" á að hegða sér. Ég er óstýrilát og óþekk og geri flest sem flestir "sjúklingar" gera ekki til að ná bata. Ég ögra mér, ég ögra fjölskyldum mínum, svo mikið sem flestir myndu ekki gera. En að búa við þennan sjúkdóm.. hefur sagt mér og fullvissað að ég skyldi og mun á meðan ég er hress og með svo góða líðan sem raunin er í dag hegða mér á þann hátt sem mig langar til í hvert og eitt sinn. Mig langar til að lifa þessa góðu daga og þessa góðu tíma lifandi, mig langar til þess að njóta og gera það sem fær mig til að líða eins og ég hafi ekki sjúkdóm. Mig langar til þess að fara á hestbak, þá daga sem ég get farið á hestabak. Mig langar til að gera margt með sonum mínum, en eðlilega eru þeir að lifa sínu lífi á sinn  hátt á sínu þroska- og aldursskeiði sem þeir eru á í dag og hvern dag sem þeir lifa. Efalaust finnst einhverjum að ég ætti að verja mínum dögum undir sæng og haga mér "skynsamlega" svo að ég muni ekki lenda á sama stað og ég hafði áður verið á þegar ég var virkilega veik. En í dag"þó að allir dagar séu ekki 100%" eru þó fullt af dögum sem ég er kannski 50-100% í lagi og þá daga vil ég nýta eins og mér er framast unnt að lifa á sem bestan hátt. Ég hef gert ýmislegt sem sumir hafa haft áhyggjur af, ég hef líka gert ýmislegt sem ég hef haft áhyggjur af. Helst þá að gera lítið sem ekki neitt. Ég hef val í mínu lífi. Ég get lifað því sem sjúklingur og látið alla vorkenna mér... legið í rúminu og ekki gert neitt af viti. Af þvi að ég veit að ef ég ögra mér þá mun ég líða fyrir það næsta dag já og jafnvel næstu daga, en ég veit líka það að þá daga sem ég helst vildi kjósa að liggja í rúminu skila mér engu.. já engu. Ég hef í sumar upplifað daga þar sem ég hef nánast ekki komið mér framúr, vegna "aumingjaskapar" en þegar ég hef byrjað að gera eitthvað þann sama dag þá kem ég bara ýmsu í verk og mér líður hreinlega ekki verra næsta dag, heldur en ef ég hefði bara legið í rúminu. Fyrir marga er þetta kannski erfitt að skilja, en fyrir mig hefur þetta skilið á milli þess að vera aumingi eða virkur þátttaknadi í lífinu. Ég hef á sumum skilið það að ég sé mögulega að ögra, ögra hreinlega lögmálum lífsins. En ég verð að segja það, að á meðan ég er lifandi og einhvers verð, þá vil ég lifa lífinu lifandi. Það er bara þannig að það skilar mér engu að lifa lífinu sem lifandi dauð.
Verst finnst mér kannski að einhverjir telja að ég sé ekki að lifa mínu lífi á sem bestan hátt. En ég get bara voðalega lítið gert við því. Hvernig öðrum líður vegna mín er ekki mitt að kljást við. Aðrir verða að eiga við sínar tilfinningar. Ég get ekki breytt öðrum. Mig langar oft mest til þess að geta breytt annarra líðan, en eftir því sem lífið líður og ég öðlast styrk og þroska hefur mér alltaf gengið betur og betur að skilja að ég ræð ekki lífi og tilfinningun annarra. ÞAÐ ER ÞEIRRA MÁL EKKI MITT.
En að einu sinn sem þessa dagana fær mig til að trúa á styrk og vilja annarra þá var litla systir mín að útskrifast með sveinspróf á hársnyrtibraut. Húrra fyrir Fríðu Marý og auðvitað fyrir Ellý Rut með sína flottu rauðu húfu. Ég hef hins vegar ákveðið að innan stutts tíma mun ég útskrifast með hvíta húfu og þá verður veisla I PROMISE !!!

26.09.2016

Á morgun ætla ég loksins í blóðprufu... vona að ég sé ekki verr sett en síðast. En mig minnir að það hafi verið 123 talan sem ekki allir skilja en ég skil svo vel. Tala mín þarf að vera á milli 120-140!! Ég hef efst komist í 127 sem var alveg frábær tala, en þá var ég líka að taka töluvert meira af sterum (Prednisolone) heldur en ég er að taka i dag. Þrátt fyrir mín verkefni á ég samt að vera standby fyrir aðra, sem er alveg eðlilegt og mér finnst það gaman. Mér finnst gaman að taka þátt í lífnu og mér finnst æðislegt að ég get og má stjórna því í hverju ég tek þátt í. Einhverjir eru ekki sáttir við hvernig ég er að lifa lifinu og hvaða líf og leiðir í lífnu ég hef kosið að taka. Það verður að hafa það. Ég ræð því bara alveg sjálf. Núna er ég skráð í dreifnám frá Fjölbruatskóla nl. vestra og sit tíma í félagsheimilinu þar sem kennarinn minn er ljóslifandi á Skype. Ég er að læra stærðfræði...þá stærðfræði sem hefur haldið mér frá því að vera í skóla frá því að ég var i kringum 20 ára. síðan eru rúm 20 ár. Ég tel mig vera fullorðna manneskju, búna að standa mig á minn besta mögulega hátt sem foreldri og eiginkona og núna langar mig til þess að halda mínu striki, standa við mínar ákvarðanir um mitt líf og áframhald míns lífs. Ég er að læra stærðfræði, ég er að vinna vinnuna mína, ég er móðir og eiginona. Ég er langt frá því að vera 100% og mun líklega aldrei verða 100% þó einhverjir vilji og telji að það myndi henta sér og jú líklega mér að standa mig 100% í þessu öllu. Núna er minn tími, ef einhver er ekki sáttur við hvernig ég er að lifa mínu lífi, verja mínum klukkutímum í að gera það sem ég vil, þegar ég vil þá er það auðvitað leiðinlegt. Eftirá verður það lílega meira leiðinlegt fyrir þá sem ekki telja að ég sé að standa mig á sem "bestan" hátt. Því að ég hef tekið ákvörðun og mér er alveg sama hvað öðrum finnst um þá ákvörðum. Ég ætla að gera mitt allra besta til þess að ná þessum eina stærðfræðiáfanga sem ég þarf að ná til þess að geta klárað stúdentspróf. Ef ég næ þessum áfanga þá sé fram á það að ég muni mögulega getað klárað þau fög sem eftir eru til þess að útskrifast sem stúdent, ekki seinna en í desmber 2017. Ég veit að það eru einhverjir sem finnst ég vera að standa mig misvel, að ég sé ekki að lifa lífinu mínu á sem bestan og réttastan hátt. Það er hins vegar ekki mitt mál. Mitt mál er að hugsa um mig og mína framtíð. Hvort og hvernig einhverjum finnst ég vera að standa mig eða standa mig ekki, er ekki mitt mál. Þeir einstaklingar sem svo telja verða að eiga það við sig. Knús til alheimsins frá mér, um mig til mín. Ég mun klára stúdentspróf á næsta ári og eignast þá hvíta húfu.. hlakka til að halda upp á það og vona að sem flestir samgleðjist mér akkúrat þá.

laugardagur, 3. september 2016

03.09.2016

Datt í hug að henda inn hérna færslu. Svolítið gott að hafa þetta blog... er eins konar dagbók hjá mér. Mér finnst stundum að lesa það sem ég skrifaði, því að þá rifjast ýmislegt upp fyrir mér sem ég var annars búin að gleyma. T.d. las ég síðustu færslu og rifjaðist þá upp fyrir mér hvað við erum búin að gera í sumar. Maður er ekkert að hugsa það dags daglega. Ég náði svo landafræðiáfanganum sem ég tók í fjarnámi í sumar.. einkunni 9.0 sem ég var nú meira en sátt við.. átti bara alls ekki von á slíkri einkunn. Svo já það var gaman að því. Nú á ég ekki eftir svo mörg fög til að klára stúdentsprófið. En þar ber þó hæst að nefna að ég á eftir STÆRÐFRÆÐI !!! Ég skráði mig því í stærðfræði í dreifnáminu hérna á Hvammstanga. Svo lengi lærir sem lifir, er það ekki ?? Mér gengur ágætlega að reikna.. ég fæ bara aldrei rétt svar út úr dæmunum. :-( En ég bara verð að gera þetta, svo þá verða ég a.m.k. að reyna!!!
Já svona líður nú tíminn hjá manni. Baldvin er farinn aftur í VMA og Valgeir að byrja í 9. bekk. Hannes skipti um vinnu en ég er enn að skjóta rótum í ráðhúsinu. Annars svona bara allt gott, aðeins búin að fara á hestbak. Eina ferð upp í Sel með Hannesi og pabbi kom á móti okkur út að Kárastöðum. Fyrstu réttir haustsins voru svo í dag í Hrútafirði og Miðfirði. Það er búið að vera æðislegt veður og var yfir 15°í Miðfirðinum í dag. :-)

laugardagur, 30. júlí 2016

30.07.2016

Daginn daginn.... Svaka langt síðan síðast. Tíminn flýgur svo áfram þegar það er gaman og hvað er skemmtilegra en sumar á Íslandi? Já maður spyr haha. Norðanáttin er allavega algerlega búin að standa sig í sumar, engar flugur og enginn sólbruni - takk fyrir.... smá kaldhæðni hérna á kantinum. En jú síðan síðast. Við fórum á Landsmót Hestamanna og það var mögnuð upplifun. Þessir hestar og hestamenn. Þvílíkt power og glæsileiki, fagmennska og skemmtun, allt í bland. Jú og snjóaði auðvitað í fjöll líka ;-). Semsagt allt af öllu í boði þar. En ég naut hverrar mínútu. Í júlí tókum við 2ja vikna sumarfrí hjónin.. og þær vikur liðu ansi hratt í heyskap og snúningum og svo var auðvitað Unglistin aka. Eldur í Húnaþingi. Mjög skemmtileg hátíð og frábærir skemmtarar á svæðinu. Hundur í óskilum, Retro Stefson, Sigríður Thorlacius, Jónas Sig og ritvélar framtíðarinnar og svo No More drama. Ég fór nú ekki á alla þessa viðburði en nokkra og skemmti mér alveg konunglega. Núna er Verslunarmannahelgin og elsti afleggjarinn er á Ísafirði að spila Mýrarbolta en við hin þrjú erum heima að hangsa, sem mér finnst alveg dásamlegt. Stefnum á eitthvað hestatengt, reiðtúra og skítmokstur. Gerist ekki dásamlegra en það.. að mínu mati sko.. kannski ekki annarra:-) Anyway svo er stefnan sett á Fiskidaginn mikla á Dalvík um næstu helgi. Þangað höfum við aldrei farið en ég held að það verði alveg rosalega gaman. Maður krossar bara putta að það verði kannski hlýrra en 5 gráður. En jújú það er bara lopapeysan, ekkert mál. Þær hafa aðeins verið brúkaðar í sumar. Gott að þetta verði ekki bara mölétið inni í skáp þessar flíkur.
Ég dreif mig í blóðprufu um daginn og mældist 125, sem er heldur niður, en allt í góðu samt. Mig dreymir um að lækka sterana aðeins meira, það hlýtur að fara að koma að því að ég taki skrefið. Það er bara alltaf svo erfitt. Æi en hvað með það. Ég fór annars ekkert á hestbak frá því að ég fór í aðgerðina og þangað til bara fyrir ca 10 dögum síðan en ég er bara góð og finn lítið sem ekkert fyrir öxlinni þegar ég er á hestbaki svo þetta er allt annar munur.
Think happy thoughts :-) :-) :-) Njótið lífsins, það er bara ein tilraun.....
Njóta lífsins á LM 2016
snapfídus. nokkuð hugguleg þessi :-)

föstudagur, 3. júní 2016

03.06.2016

Jæja.. ég náði báðum fögunum með einkunina 8.0. Alveg þokkalega ánægð með það, en var að vona að ég myndi fá níu í uppeldisfræði 203. Það gekk þó ekki. En so be it. Ég amk náði. Er svo búin að skrá mig í einn áfanga í sumar. Landafræði 103 í fjarnámi frá Versló. Vona að ég nái að standa mig í því !!!! Annars eru skólaslitin hjá grunnskólanum í dag. Þangað skundum við og eftir hádegi verður borinn til grafar hann Brynjólfur Sveinbergsson sá mæti maður. Hann kom víða við á sinni ævi og stóð að baki mörgu góðu sem gert var hér í samfélaginu.
Ég er annars bara ótrúleg góð í öxlinni eftir aðgerina. Byrjaði að vinna 1. júní og verkirnir minnka dag frá degi. Hestarnir eru flestir komnir á beit, 5 eru á Höfða og 4 eru hérna heima við, 2 veturgamlir voru geltir í gær og sleppt upp í girðingu. Þannig að það er bara einn foli inni í hesthúsinu en hann fer í merar fljótlega og þá verður hesthúsið tómt. Við tekur auðvitað mokstur og þrif. Það er alltaf eitthvað sem hægt er að dunda sér við. Annars styttist bara í Landsmót hestamanna. Annað er svosem ekki merkilegt minnir mig svo yfir og út í dag :-)

sunnudagur, 22. maí 2016

22.05.2016

Þriðji dagur frá axlaraðgerð. Mér líður ágætlega í öxlinni, eiginlega miklu betur en ég hafði búist við. En ég er voðalega þreytt.... Kannski verður maður bara þreyttur af því að gera ekki neitt. En kannski er líkaminn bara í smá sjokki eftir stressið undanfarið. Ég var svo rosalega stressuð fyrir aðgerðina. Ég kveið svo mikið fyrir af því að ég hélt að ég yrði svo kvalin. Anyway.. ég er eitthvað þreytt. Ég er búin að sofna 3x í dag... Sem er ekki alveg það sem ég er vön að gera. Og mig langar eiginlega bara til að sofna einu sinni enn. Kannski er þetta þreyta eftir að fá stera i aðgerðinni. Gæti mögulega verið. Annars var hestunum okkar sleppt út í dag. Þeir voru settir suður á Höfða. Ég er ekki ennþá búin að komast í einkunnirnar á INNU. Veit ekki af hverju, en það er bara lokað á nemendur. Ég held að ég verði að hringja á morgun og athuga með þetta.

föstudagur, 20. maí 2016

20.05.2016

Í gær fór ég í aðgerð á öxl. Það voru boraðir af ca 6mm af beini, axlarhyrnu eða eitthvað slíkt. Mér líður merkilega vel í öxlinni strax í dag, og reyndar strax í gær. En nóttin var svolítið óþægileg. Ég svaf frammi í stofu þar sem ég hafði betri stuðning heldur en í rúminu okkar. Ég er ennþá að bíða eftir því að fá einkunnirnar mínar úr áföngunum sem ég tók í vetur. UPP 203 og SÁL 313. Innan er bara lokuð fyrir NEMENDUR. Smá fúlt. Nú og já svo vorum við að kaupa okkur bíl. Eitt stk. VW Golf. Lítinn og snaggaralegann í snattið. Hann er ennþá í Reykjavík blessaður. En Fríða og Kristján græjuðu þau mál fyrir okkur, frábært. Baldvin er farinn að vinna hjá Vegagerðinni og er búinn að vera þar sl. 4 daga. Valgeir er búinn að vera í Kolugili síðan á mánudaginn í sauðburði. Það er starfsnám hjá grunnskólanum. Hann er ótrúlega ánægður með það, og við líka.
En já gert er ráð fyrir að ég verði ca 6 vikur í veikindaleyfi. En ég held að ég hljóti að fara að geta farið að vinna fyrr, allavega miðað við hversu góð ég er nú þegar. En auðvitað er ég að taka fullt af verkjalyfjum svo það er kannski ekki alveg að marka. Ég á að byrja í sjúkraþjálfun ca á miðvikudag eða fimmtudag og það hlýtur að verða gaman. Ég get allavega sagt að verkirnir sem ég er með núna, á þessum verkjalyfjum eru örugglega minni heldur en þeir verkir sem ég var með áður og það er gott :-)
En hérna fyrir neðan eru nokkrar myndir að gamni. Hárgreiðsla hjá Fríðu Marý og ferðin til Bautzen.



föstudagur, 13. maí 2016

13.05.2016

Júbb nú eru komin 3 ár frá því að ég veiktist. Fór í blóðprufu í gær og hgl var 125. Ég er farin að taka 2,5mg af sterum daglega. Stefnni á að minnka þá fljótlega, en þó ekki fyrr en eftir axlaraðagerðina sem ég fer í þann 19. maí nk. Í dag sóttum við Baldvin á Akrureyri, hann er búinn með önnina. Við fórum líka með Valgeir til augnlæknis þar sem sjónin hans hefur farið hrakandi. Enda sýndi það sig. Hann var áður með -0,75 en fór í -1,5 á báðum augum. Nú förum við í að panta gleraugu frá Zenni sem koma eftir svona 20 daga. Þannig að það er ýmislegt í farvatninu. Baldvin fer að vinna í Veagagerðinni í sumar og Valger fer núna á sunnudaginn í sauðburð í Kolugil og verður til loka mánaðarins. Þannig að þegar ég verð búin í aðgerðinni og vonandi eitthvað byrjuð að ná mér fer svo Baldvin í háls- og nefkirtlatöku þann 14. júní. Þegar hann ætti að verað búinn að jafna sig förum við Hannes á landsmót hestamanna á Hólum. Það verður geðveikt gaman, svo framarlega sem ég verð orðin eitthvað betri og geti gert eitthvað af viti eins og t.d. klæða mig. En framan af þarf ég að ganga í opnum peysum og víðum buxum. Til þess að geta komist í föt, því að það er víst frekar erfitt emð slasaða öxl. Ég vona bara svo heitt og innilega að þessi aðgerð sé minnimáttar og að ekki komin neitt upp í hvortki aðgerðinni eða eftir aðgerðina, þá er ég fyrst og fremst aðhugsa um blóðið mitt. Svo mörg voru þau orð. Takk og bless

laugardagur, 30. apríl 2016

30.04.2016

Maður er ekki alltaf besta útgáfan af sjálfum sér og maður getur ekki alltaf verið öllum öðrum til geðs. Sama hvað það lætur manni líða illa. Kannski ekki besta byrjunin á þessum pistli en svona er hún samt. Undanfarnir dagar búnir að  vera awesome svo ekki meira sé sagt. Búin að ferma Valgeir Ívar og búin að fara í náms- og kynnisferð til Þýskalands. Hvoru tveggja var algerlega meiri háttar að upplifa. Fermingin gekk svo vel og veislan var alveg súper :-) Takk fyrir það allir. Svo var skundað til Þýskalands og þar var líka gaman og súper. Meira að segja alvega frábært. Góðir dagar með frábæru fólki, bæði samstarfsfólki og sambærilegu fólki í Þýskalandi. Þeir sem tóku á móti okkur hjá Bautzen, þ.e. starfsfólk sveitarfélagsins og stofnanna þess stóðu sig meira en vel. Starfsfólkið okkar stóð sig líka vel. Og að sjálfsögðu sveitarstjórinn og við kórinn (haha rímar) Það sem við græddum á þessari ferð verður seint metið til fjár. Samkennd hópsins, að læra og kynnast hvert öðru, hlátur og gleði ásamt öllu öðru sem við upplifðum sem hópur getur ekkert annað komið í staðinn fyrir.
Ég er annars búin að vera nokkuð bara hress, hef ekki farið í blóðprufu síðan í byrjun mars og finnst svolítið eins og allt sé nokkurn veginn í lagi. Svona nokkurn veginn. Ég er allaveg ekki verri en margir aðrir og takk fyrir það. Næstu dagar verða pínu hektískir eins og svo margir aðrir dagar. Verkefnaskil, próf, sækja Baldvin á AK, fara með VÍH til augnlæknis, og svo einhver axlaraðgerð á ég um mig frá mér til mín. Þá getur nú vorið hafist... Já vor þann 19. maí og í nokkrar vikur þar á eftir, já eða allavega þangað til ég verð komin á ról aftur og búin að finna mér eitthvað að gera. Hvað sem það nú verður. Áframhaldandi nám á leið til stúdentsprófs, skráning í háskóla nú eða bara "ekkert". Allavega verð ég aldrei að gera EKKI neitt það er alveg pottþétt. Það er held ég bara svo rosalega leiðinlegt.
Valgeir
 
Bautzen

föstudagur, 15. apríl 2016

15.04.2016

Já nú líður að fermingu yngri sonarins. Valgeir Ívar verður fermdur á sunnudaginn. Það eru allir svo hjálpsamir og tilbúinir að taka þátt að ég er alveg klökk. Já og þakklát. Við klárum þetta lífsverkefni örugglega með stæl:-) Annars er bara búið að vera stuð hjá okkur. Partý í hesthúsinu og reiðhöllinni og mikið búið að fara á hestbak og gera og græja. Ég hef ekki farið í blóðprufu síðan síðast, en fer nú örugglega að fara. Annars virðist vera hellingur af blóði í mér þessa dagana, því að ég skar mig aðeins og það er bara alltaf að blæða úr sárinu. Það hefði líklega ekki gerst fyrir ca 2 árum síðan. Svo það er gott að geta glaðst þegar maður meiðir sig haha. Ég er samt líklega að fara í axlaraðgerð í maí... já hlakka kannski ekki svo mikið til þess:-( En eitthvað á að laga, þannig að ég verði væntanlega betri heldur en ég hef verið. Þrátt fyrir að vera búin að færa músina yfir í vinstri hendi, þá eru stöðugir verkir og doði og dofi alltaf til staðar ásamt ýmsu öðru. Ég má ekki vinna í nokkrar vikur, og það finnst mér mjög erfið tilhugsun. Ný byrjuð að komast á nánast fyrra skrið þá er sett stopp. Enginn prjónaskapur og engir reiðtúrar.. Hvað á ég eiginlega að fara að gera????? Sennilega verð ég að byrgja mig upp af bókum og vonast svo eftir góðu veðri þannig að ég geti verið úti á palli og lesið. Þetta er jú hægri höndin!!!!! En anyway, það verður betra þegar það verður orðið betra. Ég ætla allavega að ferma og fara í eitt stk. utanlandsferð til BAutzen og Dresden áður en þessi aðgerð verður framkvæmd. Og hana nú. Aðrir eru bara nokkuð hressir í fjölskyldunni og margt komið í betra horf en var um tíma. Sem er alveg frábært. En nú ætla ég að halda áfram að hugsa um fermingarundirbúning....

þriðjudagur, 5. apríl 2016

04.04.2016

Óánægja, óánægja, óánægja.... í dag er fólk búið að vera mjög óánægt. Það finnst mér afskaplega leiðinlegt. Mér finnst afskaplega leiðinlegt að fólk sé reitt, auðvitað eiga allir rétt á að koma fram með sínar skoðanir, en þessi óánægja og reiði dregur mig niður og gerir mig dapra. Það er þá verkefni hjá mér að komast út úr því að láta þessa óánægðu og reiðu skemma fyrir mér mína annars góðu daga. Það hafa verið margir slæmir dagar hjá mér, en ég hef ekki haft unun af því að útvarpa því eða sjónvarpa. Við missum svo mikið taktinn við lífið með því að vera óánægð og reið. Í dag er ég svo þakklát fyrir að vera betri til heilsunnar, já svoooo þakklát. Ég er að kynnast lífinu aftur á nýjan hátt eða kannski frekar að taka aftur upp gamla lífið mitt. Lífið sem ég lifði fyrir veikindin. Mig langar bara til að vera þakklát fyrir það hvernig heilsan mín er í dag og fyrir það hvað ég get gert í dag sem ég gat ekki gert fyrir ótrúlega stuttu síðan. Hvort einhver á pening einhversstaðar (og hvað eru það svosem margir) getur bara ekki verið eitthvað sem ég má láta draga mig niður á eitthvert plan reiði og óánægju. Lífið er yndislegt. Það er að vora, sólin er komin hátt á loft, við lifum á Íslandi. Við höfum svo margt að þakka fyrir. Eða allavega ég!!!! Ég vildi svo að fólk gæti sleppt því að berja tunnur fyrir framan Alþingishúsið.. Fólki hlýtur að líða mjög illa, og að sjá ung börn inn á milli. Hvað er það sem þetta fólk vill. Vill það peningana sem hluti þjóðarinnar á, og hefur eignast með einhverjum hætti í gegnum lífið, vill það fá þessa peninga fyrir sig? Er það betra? Ég spyr mig. Peningar, hvað eru peningar... hvað gerum við við peninga. Hve mikið af peningum er nóg. Peningar eru völd... Viljum við öll vera við valdstólinn af því að við eigum skítnóg af peningum. Er hægt að breyta þessu?
Framundan hjá minni fjölskyldu er ferming yngri sonarins, ég ætti kannski að hafa tunnur við félagsheimilið svo fólk gæti barið í tunnur... yrði einhver ánægður með það? Ég bara spyr mig. Er þetta í alvöru það sem við viljum. Er þetta það sem landið okkar á að vera frægt fyrir? Ég allavega skammast mín fyrir ástandið sem verið er að básúna upp.

fimmtudagur, 3. mars 2016

03.03.2016

Fljótlegt er að koma sér inn í hinar og þessar aðstæðurnar sem geta verið stressaukandi. Það er kannski ekki það réttasta fyrir mig að gera, en það getur samt verið gaman og hreinlega merki um að maður sé jú lifandi. Ég er alveg að halda hemóglóbíninu á réttu róli. Búin að fara í mælingu núna í lok febr. og var 128 sem er held  ég sama tala og ég var í janúar. Sú tala er bara akkúrat það sem meðal Jón á að vera með. En konur eiga að vera á milli 120 og 140. Ég er aðeins að minnka sterana og er komin í 3,75/3,75/2,5 í 3ja daga rúllu. Ég stefni á að fara að breyta í 3,75/2,5/2,5 á næstu dögum og taka þeim afeitrunareinkennum sem þá munu koma fram. Ég finn ótrúlega fyrir þessari litlu breytingu og ég held að læknum finnist ég taka þessu frekar rólega og í raun ætti ég að geta hreinlega hætt með litlum fyrirvara. En ég þori hreinlega ekki að taka of mikil stökk í lækkuninni af því að ég vil ekki sjokkera líkamann það mikið að hann fari aftur í gang með hemólýsuna. Það er staður sem ég vil ekki lenda á aftur. Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég þyrfti að fara aftur að taka 75mg af sterum eða hvað sem það gæti hljóðað uppá. Þannig að ég ætla bara að halda þessu áfram. Kannski næ ég að hætta á sterunum á þessu ári, kannski á næsta en ef ég bara get haldið svona áfram þá er ég  sátt. Það kemur vonandi að því að ég næ að HÆTTA. Ég er annars að baka marengs fyrir messu á sunnudaginn. Fermingarbörn bjóða upp á messukaffið. Ég veit ekki hvernig botnarnir takast en þeir verða væntanlega góðir á bragðið þegar á þá er kominn rjómi og súkkulaði :-). Svo er stefna á útskriftarsýningu annað kvöld hjá Fríðu Marý. En hún er langt komin með hárnámið sitt. Svo stolt af henni:-). Ég kom mér svo í kvennahóp sem er að æfa fyrir hestasýningu sem verður um miðjan mars. Það verður eitthvað!!! Jú og svo ætlum við að skella okkur í sumarbústað um næstu helgi fjölskyldan. Ég hlakka mikið til. En reikna með því að á einhverjum tímapunkti dvalarinnar eigum við von á því að einhver vilji fara heim eða langi ekki til að vera á staðnum a.m.k. En svona er lífið. Eftirá og seinna verður þetta ógleymanleg ferð. Enda breyttist líf okkar ansi mikið þegar ég varð veik. Ég hef aðeins verið að hugsa hvað allt varð í raun og veru sjúkt. Það var svo margt sem varð erfitt og ekki hægt að gera og ég held að strákarnir og auðvitað eiginmaðurinn hafi lent í aðstæðum sem erfitt er að lýsa nema fyrir þann sem hefur verið þarna. En útilegur og fleira varð hreinlega að lúta í lægra haldi  af því að ég gat ekki verið til staðar. En svona er þetta og vonandi er þessum kafla lífs okkar lokið. Þá er best að halda áfram þar sem maður var kominn í lífinu og gera það besta úr stöðunni eins og hún er í dag. Njóta lífsins eins og það er og hafa gaman. Ekki geyma að gera til morguns það sem maður getur gert í dag af því að maður veit ekki hvað morgundagurinn hefur uppá að bjóða!!!!!

þriðjudagur, 16. febrúar 2016

16.02.2016

Verkefni dagana er að þjálfa fyrir hestamót.. ómæ.. En við Baldvin vorum líka á LSH á fimmtudag og föstudag til að fara yfir blóðrýsting og annað í sambandi við hans líkamsástand. En hann þarf allavega að passa að taka sín lyf. Ég tek mín lyf, Hannes tekur sín lyf og Valgeir tekur sín lyf. við erum svona lyfja fjölskylda. Annars er allt allt að ganga ótrúlega vel. Lífið er fullt af skemmtilegum atvikum, sérstaklega í kringum hestamennskuna. Hvar væri ég án hennar. Að vakna á morgnana og finnast að maður komist ekki fram úr rúminu, en þá læðist þessi hugsun að mann "hestarnir" og maður setur fótinn fram úr og svo stendur maður við hliðina á rúmin og hugsar bara um það sem framundan er í hesthúsinu. það er allt að gerast þar. Þar er vellíðanin, það er útrásin, þar er








spennan og þar er lífið. Það er erfitt fyrir aðra að skilja, en líklega væri ég föst inni í rúmi alla daga og sæi ekki tilgang með því að fara framúr. En fyrir hestana, fjölskylduna, foreldarna og vinina þá er þetta hægt. Takk allir fyrir að vera til staðar fyrir mig, óháð hvernig ég funkera í heiminum. En án hestanna, sérsataklega hestanna þá held ég að ég væri ekki til.

miðvikudagur, 10. febrúar 2016

10.02.2016

Þessa önnina tók ég tvö fög. Uppeldisfræði og sálfræði. Ég á eftir 31 einingu til að klára stúdent á félagsfræðibraut, sálfræðistíg. Ég ákvað að klára alla áfanga sem ég get fyrir utan stærðfræðina. Ég ætla að gefa mér tíma næstu árin til að taka einn og einn áfanga í einu og reyna að ná þá hverjum áfanga í hvert skipti. Það er svo ótrúlegt hvað mér finnst stærðfræði ótrúlega erfið. Eiginlega einhvers konar algebra - kemur á óvart. En jú með þessu áframhaldi ætti ég að verða búin um 2020... haha Hve nett er það. Ég náði allavega öllum fögunum á síðustu önn og finnst mjög skemmtilegir áfangarnir sem ég er í núna.  Og finnst kannski að ég sé loksins að ná tökum á því að "læra" en það var ótrúlega erfitt að læra aftur að læra. En ég er allavega komin á 4 önn síðan ég byrjaði fyrir einmitt ári síðan að halda áfram með námið þar sem frá var horfið. Ég verð reyndar komin með miklu meira en 140 einingar, þar sem ég þurfti að skipta um braut. Ætli þetta verði ekki nær 160-170 einingum sem ég verð búin með "þegar" ég klára. En mér var nær!!!! Hemóglóbínið er ennþá að haldast á góðu róli. Í síðustu mælingu núna um síðustu mánaðamót var það 128 minnir mig, sem er bara sama tala og í desember, en ég er búin að ná að minnka sterana. Núna er ég komin með nýja 3ja daga rúllu og tek 3,75/3,75 og 2,5. Ég held að það verði stutt í að ég breyti í 3,75/2,5/2,5. En þetta er alltaf svolítið erfitt. Það er svo ótrúlegt hvað þessi 2,5 mg dagur er erfiðari en hinir. Allir liðir aumir, hausverkur og þreyta. Beyond everything. En þetta kemur. Kannski verð ég komin í 2,5 alla dag í maí-júní. Það styttist annars óðfluga í fermingu sem verður 17. apríl. Eina sem við erum búin að gera er að bóka salinn. Þetta hlýtur að fara að koma.......... En jú. Hannes fór til Póllands í janúar á handboltamót. Við Valgeir vorum hússtjórar á meðan, það gekk allt vel. Síðan er búið að vera þorrablót og mikið gaman þar. Ég reyni að fara eins mikið á hestbak og ég get og hestarnir eru ótrúlega skemmtilegir. Það gengur reyndar rólega með tamningafolana, en þeir verða einhvern tímann reiðhestar, vona ég. Baldvin er á Akureyri og er kominn með baunina þangað. Rúntar um bæinn á þessari rauðu limmósínu. Heppinn hann !!!!Í dag er öskudagurinn.. enginn í búning á þessu heimili. Ég veit ekki hvort ég set á mig eitthvað makeup áður en ég mæti í vinnuna... Bara don´t know. En svo er líklega von á Baldvin heim í kvöld, þar sem það er svona miðsvetrarfrí í skólanum á morgun og hinn. Jæja gott í bili.

laugardagur, 2. janúar 2016

02.01.2016

Gleðilegt ár!!! Búin að hugsa svo mikið um foreldravandamál undanfarið. Og sérstaklega þegar ég upplifði það um áramótin að vera orðin eitt slíkt sjálf.  Svo skrítið þegar maður lendir í því að verða eitthvað sem maður ætlaði aldrei að verða. Þegar maðurinn sagði við mig fyrir nokkrum árum að láta börnin mín vera.. að vera ekki að hamast í þeim og skammast, þá fannst mér eins og ég tæki það til mín og að ég stæði mig ágætlega. En ég þarf greinilega að staldra aðeins við og skoða hvað ég er að aðhafast gagnvart börnunum mínum, og líklega fleiri. Ég er ekki hérna til að stýra og stjórna því hvað börnin mín gera og hvernig þau gera það. Ég er hérna til að vera til staðar þegar börnin mín þurfa á mér að halda. Ég get komið með ótal afsakanir fyrir því af hverju ég "þarf" að stýra og stjórna... því að auðvitað veit ég betur hvað er réttast og best og hvernig best er að hlutirnir séu gerðir. En það er samt ekki mitt hlutverk!!! Ég þarf að vera sýnileg og innan handar þegar þeir þurfa, en ég á ekki að vera við stýrið í þeirra lífi. Og hana nú. Ég er búin að hugsa þetta svo mikið núna í 1 1/2 sólarhring, en hugsa er ekki nóg, ég þarf að gera. Og með því að gera á ég við að gera minna, stýra minna, treysta meira. Þeir þurfa að fá að stjórna sínu lífi, ég get bara staðið til hliðar og verið til staðar.
En jæja búin að skrifa þetta í marga hringi. Held að ég sé búin að ná því sem ég er búin að vera að hugsa. Nú er komið að því að framkvæma. Börnin mín eiga ekki að vera fangar mínir, þeir eiga að vera sjálfstæðir sterkir einstaklingar og ég mun taka mig á í því að treysta því að þeir séu sú besta útgáfa af sjálfum sér sem þeir geta verið :-) góðar stundir.