föstudagur, 25. október 2013

ónefnda færslan

Fékk staðfestar tölur í dag. Hemóglóbínið er 121 og hefur því lækkað aðeins frá því í síðustu mælingu. Að sama skapi er ennþá eyðing í gangi (eins og 2+2 eru 4). Ég er búin að vera að fara í vinnuna núna í vikunni en bara í 2 tíma í einu. það gengur bara ágætlega. En ég finn að þessir tveir tímar eru alveg nóg - bæði svona almennt séð og svo bara gengur mér ekkert sérstaklega vel að framkvæma verkin í vinnunni. Þarf að einbeita mér alveg rosalega mikið og vanda mig að sama skapi til að vera viss um að vera að gera rétt. Svo skrítið þar sem ég hef alltaf bara getað vaðið áfram og framkvæmt og verið nokkuð viss um að ég hafi verið að gera rétt. En núna skrifa ég hjá mér hverja hreyfingu og fer jafnvel yfir áður en ég framkvæmi því að ég er svo gjörn á að gera vitleysur og er mjög óörugg. Ég er bara ekki alveg með fulla getu og já bara langt frá því. Bæði líkamlega og andlega. Ég sendi póst á hann Sigurð í dag og minnti hann á að hann hafi ætlað að hringja í mig. Hann sendi mér póst til baka og sagðist hringja á morgun. Ég tel mig samt eiginlega alveg vita hvað hann segir. En það verður að halda áfram á 15mg af sterum... fara aftur í blóðprufu í næstu viku og sjá hver staðan er þá. Ég ætla bara að trúa því að þessi minnkun sé bara tímabundin og jafnvel hafi bara komið svona niðursveifla og að þetta lagist aftur á næstu dögum. Hann lætur mig svo örugglega vera kannski 1 viku lengur á þessum 15 mg og sjá svo til hver staðan verður eftir það. Ég held að það sé alveg til í dæminu að fólk lækki aðeins í hemóglóbíni þegar það er verið að minnka sterana. Og jafnvel held ég að fólk (þrátt fyrir að geta minnkað sterana) haldi aldrei alveg hemóglóbíninu á þessu meðaltals róli þ.e. ca 120-145 hjá konum. Og það þurfi jafnvel að búa við að vera með þessa mælitölu kannski í kringum 100-110. En ég gæti svosem alveg sætt mig við það (held ég) ef ég næ að minnka sterana og helst losna alveg við þá. En það er bara ekki að sjá að það sé neitt garantí í þessum blóðsjúkdómi sem ég einhvern veginn hef náð mér í. Og það er ekki að sjá að neinn lagist 100% nema þá kannski í einhvern tíma og það er eins með það... ekkert vitað hvenær þetta dúkkar aftur upp og þá kannski bara 12og3. Fólk verður blóðlaust í hvelli og þá þarf bara að koma því á hospital asap.
Ég hélt alltaf að þegar ég færi að blogga (sem ég hef aldrei gert áður) að þá yrði það svona "skemmti" blogg. Þ.e. ég mundi verða ferlega fyndin og koma með hnyttnar setningar og einn og einn brandara. Önnur er nú aldeilis að verða raunin. Ekki nema kannski hvað þetta er grátbroslegt :-(

Engin ummæli:

Skrifa ummæli