mánudagur, 7. október 2013

Ennþá á lífi :-)

Mánudagsmorgun og ég get svo svarið það að hnúðurinn á bakinu er að minnka. Kannski bumban líka!!! Ég þori varla að hugsa um að þetta sé að gerast og meira að segja gleraugun skerast ekki "eins" mikið inn í andlitið á mér og þau gerðu. Sjöníuþrettán! Ég ætla að drífa mig út að labba til að halda upp á þetta. Munar greinilega um að minnka sterana sem ég auðvitað vissi en ég er samt ennþá óróleg yfir því hvort þetta haldi blóðgildunum í lagi. Það verður víst að koma í ljós. Ég er komin með "langan " lista til að fara yfir með honum Sigurði á fimmtudaginn þegar ég hitti hann í R-vík. Við erum semsagt að fara í svona crash course ferð til Reykjavíkur þar sem ég á tíma um 12:40 á Landsspítalanum og svo eigum við tíma hjá Bertrand með báða strákana um 13:45. Þannig að þetta verður bara svona brunað til Reykjavíkur ferð til læknis og svo aftur heim í hvelli :-). Reyndar er það að verða alvega venjulegt hjá okkur. Maður gefur sér aldrei tíma til að stoppa og slaka á þegar maður er kominn  suður. Það er alltaf eitthvað sem kallar á að maður drífi sig aftur heim. Enda er maður nánast bóndi með hund og hænur.
Þessi helgi var annars bara ágæt að mörgu leyti. Við löguðum aðeins til í hjónaherberginu með góðum árangri. Áttum samt enga málningu sem má segja að sé verra því að við höfum aldrei klárað að mála alla veggi í því herbergi frá því að við byggðum húsið. "hóst!" en það stendur til bóta. Allt sem á eftir að gera hlýtur að lokum að verða gert. Eða ég segi það allavega. Svo er ég mikið búin að vera að skoða IKEA bæklinginn og heimasíðuna - og bara búin að sjá margt sem mig "vantar" alveg bráðnauðsynlega. Svo það er aldrei að vita nema maður panti sér eitthvað smálegt og nytsamlegt þaðan svona til að betrumbæta húsið okkar. En best að drífa sig út í sólina. Ég held að sólgleraugu og derhúfa sé alveg málið núna B)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli