laugardagur, 10. ágúst 2013

Rituximab /MabThera

Tilhlökkun/kvíði og allt þar á milli !!!!!

Já og síðustu tölur.. Mæling núna á þriðjudaginn sagði hgl. 97 þannig að þó að ég sé að taka 45 mg af sterum þá bara hangir blóðið í 97. Er búið að vera það undanfarna viku.

Í gær var svo hringt frá landsspítalanum og ég boðuð í lyfjameðferð með rituximab/mabthera á fimmtudaginn kemur þ.e. 15. ágúst klukkan 08:20. 

Ég veit að Sigurður er í sumarfríi og hann var líka búinn að láta mig vita að það yrði haft samband fljótlega en ég átti ekki alveg von á þessari dagsetningu sérstaklega þar sem ég var alveg í nokkur skipti búin að segja honum að ég yrði í útlöndum frá 14. ágúst nk. 
Ég varð nú bara að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði og biðja um hvort ég gæti ekki fengið að koma síðar (ekki það að mig langi til að fresta þessu) en ég ÆTLA bara að fara til Tenerife - nema bara eitthvað (sem ég veit ekki hvað gæti verið) gerist. En ég allavega spurði hvort ég gæti fengið að koma síðar og það var athugað og fékk ég því tímanum breytt. Mæting í 1. tíma í lyfjameðferð er því 22. ágúst nk. kl. 08:20 á Landsspítala deild 11B . Skv. þeim upplýsingum sem ég fékk þá byrjar dagurinn á fræðslu og tímalengdin er sett til 14:00 og svo kemur bara í ljós hvað verður. Ég geri allavega ráð fyrir að dagurinn fari í þetta og við ætlum að athuga hvort strákarnir fari ekki bara norður með Dýrunni og Ársæl þegar við lendum og þeir verði svo bara þar þangað til við komum aftur norður væntanlega bara á fimmtudeginum ef allt verður í lagi. En stúlkan hélt að það ætti alveg að geta gengið. Ég er auðvitað búin að googla þetta og það virðist nú geta verið einhver óþægindi með lyfjagjöfinni, bæði á meðan henni stendur og eins restina af deginum og næstu daga. En ég ætla nú kannski ekki að mála skrattann á vegg. Það kemur þá bara að því þegar að því kemur. (speki) 
Valgeir er annars farið að hlakka svo til að fara að hann telur dagana sem eftir eru fram að ferðinni bæði þegar hann vaknar á morgnana líka um miðjan daginn og svo oft á kvöldin. :-) Baldvin hefur meira verið svona kvíðinni og hefur verið að telja sér trú um að þetta verði ekki gaman og að hann muni týnast og að það verði ekki farið í neina "parka" og þetta verði bara ómögulegt. Við erum nú aðeins búin að googla þetta með honum og sýna honum myndir. Eins fór ég yfir þetta á dagatalinu með honum að þetta væru nú ekki svo margir dagar að það hreinlega væri ekki hægt að vera í leikjagörðum alla daga allan daginn. Ég held að það hafi aðeins hjálpað. Hann er eitthvað rólegri núna og virðist vera að sætta sig við þetta. en ég hlakka líka ótrúlega mikið til- og það held ég að Hannes geri líka :-) 
það eru þó einhverjir hnútar hér heima sem á eftir að binda svo að við komumst af stað í þessa ferð en það verður græjað í dag og næstu daga. Þar á meðal er pössun fyrir hundinn og hænurnar og græja hestana og eitthvað fleira. En þetta á nú allt eftir að koma og verða í lagi :-).
Og nú eru sterarnir að byrja að kikka inn... svo ég fer að verða hauslaus og hugsunarlaus svo það er best ég hætti þessu pikki........

Engin ummæli:

Skrifa ummæli