Ég er farin að hlakka svo til að geta "hætt" á sterunum að það er að verða skuggalegt. Ef ég get hætt.... það er líka skuggaleg hugsun. Skv. rannsóknum mínum í netheimum í gær þá ætti ég að geta verið hætt á sterunum eftir nokkrar vikur (ef Mabthera virkar). Þetta EF er orðið svolítið stórt!!! Núna er ég á þriðja degi frá fyrstu lyfjameðferð og bíð og vona að lyfið virki og það bara sem allra fyrst. Hemóglóbínið var 103 á fimmtudaginn í mælingu á landsspítalanum og hafði þá lækkað örlítið frá því þegar við fórum til Tenerife. En ég fékk samt að lækka sterana úr 45mg í 40 og jú ég er sko þakklát fyrir það. En það er svo dásamlegt að vakna á morgnana og vera "nánast" með fulle fem og hafa fulla hugsun og meðvitund og svo er jafn ódásamlegt að skammta sér prednisolonið og hitt allt og kyngja því og vita hvað gerist eftir ca eina klukkustund þegar maður missir alla rökhugsun og verður lyfjaður og vankaður og hefur ekki heila hugsun (sem er að gerast akkúrat núna) og þessi ónotalegi heilastjarfi sem tekur yfir. En anyway... næsta lyfjagjöf á fimmtudaginn ásamt mergprufu og blóðprufu. Vonandi fer blóðið að fara upp svo að ég geti minnkað sterana meira þá. vonandivonandivonandivonandi.
Ég tók upp úr töskunum í gær... það tók á enda liggja töskurnar ennþá á gólfinu og bíða eftir að verða settar upp á skáp.... Ætli Hannes fái ekki að díla við þær þegar hann kemur heim úr veiðinni. Eitthvað þvoðist nú samt en eitthvað er ennþá eftir. Ég sofnaði ekki fyrr en um fjögur í nótt held ég... var að prófa að sleppa því að taka svefnlyf en sterarnir eru með ansi mikil ítök í heilanum svo að ég bara næ ekki að sofna. Ligg og les og er bara alls ekkert þreytt. Þetta gerir það að verkum að ég verð skapstirðari (eins og maður megi við því og aðrir í kringum mann) og pirraðari. Svo ég býst við að ég bara haldi mig við fyrri plön og reyni ekkert að vera að hætta að nota svefnlyf eða önnur lyf fyrr en sterarnir eru orðnir í lægri skömmtum.
Eftir að hafa talað við Ínu í gærkvöldi þá áttaði ég mig loksins á því að ég þyrfti víst eitthvað að gera í sambandi við það að skólinn er að byrja hjá strákunum. Fór á Mentor og prentaði út stundaskrárnar þeirra (gerði það í gærkvöldi gat ekki meir) áðan prentaði ég svo út innkaupalistana og skóladagatalið (held ég geti samt ekki farið í kvh og verslað bara næ ekki að halda fókus á hvað er hvað á þessum listum... plastmöppur, 4ra gata möppur . og möppur og eitthvað ég bara get ekki náð utan um þetta) en það koma aðrir dagar og þetta græjast allt. Valgeir fer svo á Hólmavík á þriðjudaginn í skólaferðalag og Baldvin á að fara á Arnarvatnsheiði á fimmtudaginn og gista (engar nánari útlistingar komnar fyrir það) og veiða og eitthvað. Vonandi koma fljótlega póstar um hvað hann á að hafa með sér og eins hvort það er gist í skála eða tjöldum eða hvað.... Æi já svona gengur þetta nú. Ég ætti að drullast til að standa upp og gera eitthvað eða allavega reyna að gera eitthvað. það er svo á þessu heimili eins og öðrum að það eru alltaf til verkefni :-) alveg sama þó að húsmóðirin sé heima allan daginn alla daga og hafi verið það frá 10. maí þá er alltaf eitthvað sem þarf að gera eins ótrúlega og það hljómar nú !!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli