Sæl,
Ég er búinn að hafa samband við kollega mína til að
planera rituximab. Þú munt fá tíma fljótlega.
Kær kveðja,
Sigurður Yngvi
Þetta er nýjasta nýtt frá blóðmeinasérfræðingnum mínum (sem er í sumarfríi). Ég fór í blóðprufu á þriðjudaginn og mældist 99 hér á HVT... hann Sigurður hefur ekki einu sinni sent mér útkomuna frá LSH svo það hlýtur að vera sama talan (þegar ég er að skrifa þetta þá fatta ég að ég get auðvitað hringt á heilsugæslu og fengið töluna- geri það á eftir). Bara svona til að vera viss. En annars býst ég svo bara við að fara í blóðprufu á mánudaginn eða þriðjudaginn næsta þ.e. áður en við förum út. Ég á líka tíma hjá Geir lækni á mánudaginn svona til að fá "fararleyfi". En ég er núna búin að vera á 45 mg af sterum í viku og ég held varla uppi blóðmagninu með þeim skammti svo ég er svosem ekki hissa á að Sigurður ætli að gera eitthvað róttækara í þessu hjá mér. Sumpart er mér létt en sumpart finnst mér þetta hræðilegt. Þetta er svona einhvern vegin staðfesting á að það sé bara ekki allt í lagi. Eða þannig. Warm autoimmune hemalyti anemia er heitið á sjálfsnónæmissjúkdómnum og ekkert um þetta að finna á íslensku (nema þá að googla blóðleysi eða eitthvað svoleiðis) en svosem nóg um þetta að lesa á ensku. En það eru bara alls konar orð og skammstafanir sem eru erfiðar og flækjast fyrir manni. Ekki það - ég er að vera nokkuð lunkin í þessu læknamáli og þá kemur reyndar google translate sterkt inn :-). Annars hefur vikan liðið nokkuð hratt - svona fyrir utan geðsveiflur og almenn ónot sem hafa verið svona sambærileg við aðra daga. Dagurinn í gær var reyndar MJÖG skemmtilegur þar sem við mæðgur skelltum á pottapartýi á pallinum hjá mömmu með tilheyrandi veigum og grilli á eftir sem var alveg frábært :-) Allt í lagi að þakka fyrir það !!!! Helgin verður væntanlega góð þar sem Ellý stakk upp á því að við mundum taka að okkur að gæta pottarins og já hver veit nema maður nappi lyklinum að honum. Svona til að byrja að æfa sig í að blotna fyrir Tenerife ferðina.Þá er ég nú að tala um að blotna að utan - ekki innan en það má svosem æfa sig í því líka... býst við að þurfa að vera dugleg að "drekka" á Tenerife.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli