sunnudagur, 27. desember 2015

27.12.2015

Í morgun þegar ég vaknaði fór ég að hugsa um veikindin mín.. Þessi ár sem liðin eru frá því að ég veiktist, hvernig það var að vera veik og muninn frá því hvernig ég var og hvernig ég hef það í dag. Þarna er himinn og haf á milli. Og ég er þakklát fyrir hver staðan er í dag.. svo þakklát. Í gærdag fórum við Hannes í göngutúr, ég gat sprettað upp brekkuna hjá hesthúsunum, (já það var erfitt), ég fór á hestbak á 2 hesta og svo í jólakaffi til Dýrunnar og Ársæls og þar var hlegið og hlegið (sem mér þótti annars erfitt) og svo komu gestir um kvöldið.... og ég gat þetta!!!!!! Ég bara gat þetta alveg, án þess að verða svoooo þreytt, eða fá svoooo mikinn hausverk eða geta kannski bara labbað einn hring hérna í Grundartúninu og svo ekki meira þann daginn. Fyrir utan það hvað þetta var erfitt fyrir eiginmanninn, synina, foreldra, systkyni og vini. Ég var ekki við stjórnvölin á eigin lífi. Eftir þessar hremmingar, sem ég tel að séu búnar. Þá ætla ég að stjórna mínu lífi sjálf. Ég ætla ekki að vera hrædd um að eitthvað geti gerst, eða vorkenna mér fyrir hitt eða þetta. Ég ræð mínum tilfinningum sjálf. Ég ætla að vera ánægð og þakklát fyrir hvað hver dagur ber í skauti sér. Ég er í það minnsta lifandi og bara nokkuð spræk. Þarf maður eitthvað meira? Ég ber heldur ekki ábyrgð á því hvernig öðrum líður, ég get hreinlega ekkert gert til að breyta líðan annarra. Þetta er í sjálfu sér val. Og val sem hver og einn stýrir fyrir sig. Ég finn samt að sl. ár hafði ég ekki val. Ég var fangi veikinda og lyfja. Nú er ég nánast lyfjalaus og líður betur. Þá er líka eins gott að njóta þess að vera lifandi og hress og tækla hvern dag eftir bestu getu. Ég óska öllum að geta þakkað fyrir það á hvaða stað þeir eru í lífinu í dag. Ef þeir eru ekki sáttir við hver þeir eru, þá vona ég innilega að þeir nái að taka smá naflaskoðun á sjálfum sér og finna út hvert þeir ætla í lífinu. Mitt líf er hér og nú með þeim sem eru mér kærastir.

föstudagur, 25. desember 2015

25.12.2015

Gleðilega hátíð allir sem einn. Nú sit ég hér á jóladagsmorgni og hugleiði með sjálfri mér. Úti er logn og 7 stiga frost. Alveg ofsalega fallega blá birta úti eiginlega alveg ótrúlega falleg. Svona nánast eins og draumur það er svo fallegt að sitja hérna í eldhúsinu og horfa út um gluggann minn stóra. Það er enginn á ferli, enda liggja vonandi flestir ennþá undir sæng og kúra og hjúfra sig að sínum drumahetjum, hvort sem þær eru raunverulegar eða ekki. Aðfangadagskvöldið var notalegt með strákunum mínum þremur. Það er gaman að spá í hvað hlutirnir breytast mikið á milli ára. Matartíminn tók rúmlega hálftíma (var áður mun styttri), og svo var hjálpast að við að ganga frá. Valgeir fór reyndar í að raða pökkunum undir tréð, en það var enginn með neinn asa eða æsing þetta árið. Eða svona þangað til við fórum að opna pakkana. Valgeir byrjaði á því að opna fyrsta pakkann... sem reyndist svo vera til Baldvin en ekki hans sjálfs ..... haha við hljógum mikið, sem betur fer varð enginn sár. En Baldvin fékk bara að opna Valgeirs pakka í staðinn. Já hér er alltaf mikið fjör. Við erum innilega þakklát fyrir kvöldið, matinn góða og gjafir allar. Og að sjálfsögðu kökuna hjá Helgu og pabba, en þangað röltum við þegar búið var að opna pakkana. Baldvin galdraði reyndar fram mynd til að horfa á um kvöldið Home alone, það var bara gaman að því :-). Nú er stefnan svo tekin á að renna í Borgarnes til mömmu og Gumma og eyða stund með þeim :-). Svo gaman að því hvað lífið býður manni upp á nýtt og spennandi frá tíma til tima. Þannig að nú er Hannes kominn fram og þá tekur við að vekja ungu mennina, það tekur rúmlega 2 mínútur,, svo verður bara sjænað sig til og brunað suður yfir heiði. Jólaknús á alla sem reka augu í þetta bull í mér.

mánudagur, 21. desember 2015

21.12.2015

Styttist í jólin ennþá..... og við byrjuðum að mála í gær... Eða Hannes byrjaði að mála. Málaður var 1 veggur í stofu alveg inn í eldhús og þar út í horn, yfir og undir eldhúsinnréttingu. Seinni umferð á hluta þess sem málað var í gær verður máluð í dag. Ég stóð svo með pensil og sletti á nokkra hurðakarma og gluggakarma akrýllakki. Það er hálfgerð hreingerning í því, enda allt út í strikum eftir fótbolta hér innanhúss. Hve nett er það :-) Allaveg er líf í húsinu. Nú eru allir komnir í jólafrí. Baldvin er kominn heim og fékk vinnu í sjoppunni í nokkra daga, það var aldeilis frábært. Valgeir fór í Kolugil strax eftir að hann var kominn í jólafrí og stoppaði þar í 2 sólarhringa. Þau eru alveg frábært að leyfa honum að koma í heimsókn:-) Ég náði mínum prófum... 7 í fél 303, stjórnmálafræði, 8 í upp 103 og 8 í sál 203, þroskasálfræði. Þannig að í ár er ég búin að næla mér í 24 einingar í framhaldsskóla og ég er meira en sátt við það.
Ég er búin að hafa samband við námsráðgjafa í FNV og hún gefur mér upp að ég eigi 31 einingu eftir. Þar af eru reyndar 7 stærðfræðieiningar, eðlis og efnafræði og landafræði, en annars er það nánast eingöngu uppeldis, og sálfræði sem eftir er. Ég veit ekki alveg í hvaða röð ég á að taka þetta. Sumpart vil ég fara að byrja á stærðfræðinni, en sumpart langar mig til að fresta henni !!!!! Ég veit, hika er sama og tapa. En ég er helst á því að ég reyni að taka einn stærðfræðiáfanga og kannski uppeldisáfanga eða sálfræðiáfanga núna eftir jólin. En mig langar rosalega til að klára þetta vorið 2017, það er reyndar frekar strembið held ég. Ég veit ekki hvort ég get tekið áfanga í sumarskóla í sumar. Það er svo margt sem stendur til í sumar. Ég ákvað reyndar líka að fara í rækilega naflaskoðun á ýmsu hjá sálfri mér um daginn og er að vinna í því þessa dagana. Ég fór af stað með ákveðið verkefni í huga, en ég veit ekki hvort ég get klárað það á þann hátt sem ég hugsaði mér. Ég er að reyna að komast að því hjá sjáflri mér hvort ég yrði sátt við að taka skrefið, annað hvort að hluta eða heild, en það eru margar blendnar tilfinningar í gangi. Mér hefur hins vegar verið ótrúlega létt eftir að ég byrjaði ferlið, en hvort það verður jafn mikill léttir til lengri tíma bara veit ég ekki og er helst hrædd um að svo verði ekki.

sunnudagur, 13. desember 2015

13.12.2015

Hér er ég vakandi klukkan 8 á sunnudagsmorgni. Er búin að vera vakandi síðan kl. 6.00 þegar Baldvin var að koma heim. Ég er nú reyndar að verða svolitið syfjuð, kannski halla ég mér bara aftur :-) Hve nice væri það. En já ég fór í blóðprufu í vikunni og hgl er komið upp í 128. Sem er hæðsta tala að mig minnir að hafi komið síðan ég veiktist. Ég var samt farin að halda að ég væri að lækka en ekki hækka þar sem ég var komin með einhver einkenni, sem mér fannst óþægileg. En það hefur líklega bara verið vöðvabólga og prófstreita. Nú eru prófin búin og mér finnst að ég hafi allan tíman í heiminum til að gera hitt og þetta. Og það á allt eftir að hafast og koma jól eftir ca 10 daga. Ég var annars í Uppeldisfræði 103 og Sálfræði 203 (þroskasálfræði) og Félagsfræði 303 (stjórnmalafræði). Þetta var frekar strembið að vera í 3 fögum með vinnu en hafði þó. Nú er bara spurning hvað ég tek eftir áramót. Ég þarf að heyra í námsráðgjöfum með hvert framhaldið verður svo að ég klári þetta kannski á komandi árum. Annað er svosem ekki markvert í bili:-)

laugardagur, 7. nóvember 2015

18.10.15

ýmislegt hefur á dagana drifið frá því síðast. Sumt markvert, sumt ómarkvert. Við familían vorum að koma frá Reykjavík eftir 17 ára afmælishelgi með Baldvin Frey. Við höfum ekki staðið okkur alveg nógu vel í að aðstoða hann með bílprófsundirbúning, þannig að það er ekki ennþá komið í hús. En það styttist nú engu að síður. Við fórum suður á föstudaginn og eyddum helginni í stéttarfélagsíbúð. Strákarnir fóru í bíó á föstudagskvöldið - ég hvíldi mig auðvitað. Og svo fóru Baldvin og Hannes að horfa á leik á Glaumbar á laugardeginum en við Valli stikluðum um Kringluna. Við fórums svo út að borða á Tapasbarinn, sem var æðislegt. Fríða Marý kom með okkur sem var æðislega gaman. Allir borðuðu góðan mat og eftirrétturinn var BARA himneskur. Væri til í að fara og fá mér bara kökuna. En svo var stemmingin líka æðisleg. Spænsk, grúví, stemming. Eitthvað alveg fyrir mig allavega. En jú að matnum loknum hlupum við upp í Þjóðleikhús, því að við fórum líka í leikhús. Við rétt náðum í sætin áður en sýningin byrjaði. Eitthvað sem gerist nú aldrei hjá okkur, þ.e. að vera síðust í hús ;-).En gaman var það. Sýningin æðisleg og allir skemmtu sér vel. Við röltum svo í leigara og fórum upp í íbúð að tékka á internetinu (en ekki hvað) og skriðum svo í bælið. Æðisleg helgi :-)
Nú tekur við "lífið" aftur, lærdómur, vinna og heimilisverk. Ég er pínu með í maganum yfir náminu sem ég er í... Þetta er svolítið mikið þessa önnina. Þrjú þung fög, og maður ekki alveg að taka tímann í námið sem maður þarf. Fyrir utan að maður er ekki alveg að ganga á 100% afköstum. Ég á í dag eftir að skila ritgerð, og strax i næstu viku er önnur ritgerð.. sem ég er ekkert farin að undirbúa. og eitthvað fleira.. en þetta verður bara að hafast. Ég á svo hreinlega eftir að taka stöðuna á því hvað ég ætla að gera í framhaldinu. Ég veit ekki einu sinni hvort ég er að taka fög sem telja í þetta blessaða stúdentspróf. Þarf að fara að skoða það.
Mér datt líka aðeins í hug hvort ég ætti að fara í adhd greiningu. Já maður spyr sig. Ég er bara að versna í því að finnast að ég sé ekki að gera nógu mikið og að ég eigi eftir að gera svo og svo mikið en geri samt ekki neitt af viti (athyglisbrestur). En ég er ekki að fara í það alveg næstu dagana. Fyrst þarf ég að klára ýmislegt annað. Mig langar samt alveg rosalega til að fara að taka inn og temja. Já eða ekki temja. Umgangast hestana ætti það að heita.  Ég þarf allavega að fá mér hnakk. Ég fór í Top reiter á föstudaginn og var að prófa hnakka. Kom mér á óvart að ég fékk alveg valkvíða. Ég var alveg búin að ákveða hvernig hnakk ég ætlaði að fá mér, en ég er eiginlega búin að skipta um skoðun. Það skýrist fljótlega hvað ég geri. En jæja.. þetta er komið gott í bili. Þoddn, eins og þeir segja !!!!!

07.11.2015

Mánuður frá síðasta pistli. Tíminn þýtur svo hratt áfram. Mig er samt búið að langa til að setja hérna inn línu, en ekki komist til þess.
síðast blóðprufa 123 í Reykjavík, 122 hér. En Sigurður hringdi og sagði mér að allar tölur væru á betri leið. Þ.e. LD var t.d. frekar hátt í mars. en hefur lækkað og einnig hafa rauðu blóðkornin breyst, þ.e. minna er af litlum kornum, sem þýðir að það er minna af ungum blóðkornum, sem þýðir já að líkaminn er ekki að búa til jafn mikið af blóði, þannig að þörfin fyrir nýmyndum hefur minnkað sem þýðir (haha) að blóðeyðingin er minni. Sem þýðir að þetta eru bara góðar fréttir. Ég er búin að breyta aðeins sterunum í síðast mánuði. þ.e. var að taka 5-5-, 3,75mg (3ja daga rúlla) en nú er ég að taka 3,75-3,75-5 (3ja daga rúlla). Ótrúlega erfitt að breyta þessu, þó að þetta séu bara 1,25mg á 3ja daga fresti. þreyta, höfuðverkur o.fl. En vonandi næ ég bara að fara í 3,75 á árinu... Nú er Londonferð eftir viku þannig að ég ætla ekki að hringla í neinu og svo styttist í próf þannig að ég stefni kannski bara að því að breyta um miðjan des. eða í byrjun jan 2016. En hvað sem verður þá verður það vonandi fljótlega og gengur vel. Mest er ég samt hrædd um að lenda aftur í svona blóðleysi.... og það er einhvern veginn ólýsanleg tilfinning að maður geti aftur orðið svona veikur og það án þess að "gera" nokkuð til þess. En ég þekki einkennin og ætti því að geta gripið fljótar inní.
Baldvin Freyr er heima í helgarfríi. Það styttist líka í að hann klári fyrstu önnina í grunndeil matvæla- og ferðamálafræðia. Honum finnst þetta bara gaman. Svo náði hann bóklega bílprófinu núna á fimmtudaginn. Allir sáttir með það. Ég hef því fulla trú á því að hann verði kominn með bílpróf í jólafríinu. How nice will that be ??? ;-) Skrítið að maður hlakkar bara til að fá einn auka bílstjóra, sem getur skutlast hingað og þangað þegar maður þarf nauðsynlega á að halda. Bæði fyrir mann og með mann. Pabbi er annars búinn að taka inn hesta.. já og þar með við líka. Við með 3 stk... ótrúlegt, en eitt þeirra er að bíða eftir hvíta húsinu, hve nett er það :-(, en henni var nærbuxur. Svo er hann Herjan okkar og Blakkur sem er bara spennandi viðfangsefni. Ég er aðeins að vinna með honum þessa dagana og það lofar góðu 7-9-13. Hann er sumpart líkur pabba sínum honum Gósa. Vill svolítið sjá um sig sjálfur, en er þó ljúfur inn við beinið. Mjög spennandi vetur framundan með hann. Svo er það hann Garpur okkar, sem ég á reyndar eftir að klára að draga undan. En það kemur nú. Hann verður örugglega tekinn inn við fyrsta tækifæri. Og svo Sóla sem ætlar í hvíta húsið. Stakur verður svo tekinn inn líka og það verður líklega stæðsta verkefnið þennan veturinn. Aftur 7-9-13. Kannski  verður frumtamninganámskeið þannig að við getum farið með Blakk eða Stak á það. Who knows??? Annað gengur sinn vanagang. Valgeir stækkar... orðinn stærri en ég. Og hann er bara mjög duglegur strákur. Ég vona að ég nái þessum þrem fögum sem ég er að taka í skóla núna... Reikna samt ekki með neinni súper einkunn. En það skiptir kannski ekki öllu máli, ég þarf svosem bara að ná. Kannski að maður fari að innprenta sér það. það þarf ekki að fá 8 eða 9 eða 10. Þó að það hafi alltaf verið eitthvað sem ég hef keppst við að ná!!!! En ég vil allavega ekki falla í þessu. En ef það er mánuður i næsta pistil, þá er komið að prófunum, þau verða 7.-8. og 10. des og eftir það er komið jólafrí. Ég þarf svo að taka stöðuna eftir það. Skoða hvaða fög ég á eftir og kannski að ég þurfi að fara að taka stærðfræði ................ já no comment á það. En over and out i dag.

miðvikudagur, 7. október 2015

07.10.2015

Í dag er sólskin úti og verður líka inni. Ég er búin að hlusta á fyrirlestra á Ted.com í dag og gær. Ýmislegt fróðlegt þar og gott fyrir sál og líkama. M.a. um að sá staður sem maður er staddur á í dag er ekki endilega sá rétti. Þá á ég við vinnulega séð. Ekki hjónabandslega :-) Það er definately eitthvað sem ég ætla að hugsa um á næstunni. Og svo er líka pælingin um að það er enginn gróði í því að einblína á stjörnurnar og þá sem skara framúr í fyrirtækjum, því að það leiðir einungis til þess að hinir  verða útundan og geta ekki tekið þátt í því að halda hlutunum gangandi. Einungis með samvinnu og samhug getur fyrirtæki eflst og stækkað. Þetta var kannað með dýrum þar sem alltaf voru tekin bestu dýrin og sett í hópa... það endaði þannig að hluti dýranna drapst vegna þess að þeir allra sterkustu drápu hina niður, og þannig nær fyrirtæki ekki árangri. ted.com Ég mæli með að allir skoði þessa síðu. Mikið af motiverandi efni þarna. Ég á annars að vera að læra, bara 45 mínútur þangað til ég á að vera mætt í vinnu. Svo best að hætta í bili.

þriðjudagur, 6. október 2015

06.10.2015

Ekki að furða að ég kalli þetta blog í alvöru og gamni. Sumir dagar eru svo óþarflega mikið í alvöru!!!! Og einhvern veginn engan veginn hægt að sjá að þeir verði meira gaman en alvara. Angur, og svekk er einhvern veginn það sem innanborðs er. Það mun auðvitað lagast eins og alltaf, en samt..... Annars reyndi ég að reka svekkið og angrið á braut í dag með því að ráðast á pensil og mála yfir kattaklór og kám. Fyrst það er kattaklór er klárlega kominn tími á málningu því hér hefur ekki verið köttur í 3-4 ár ef ég man rétt. Að muna er reyndar ekki mín sterkasta hlið. En annars over and out þennan daginn.

mánudagur, 5. október 2015

05.10.2015

Undanfarnir dagar búnir að vera góðir og verri. Óneitanlega skemmtilegt að fara ríðandi í Víðidalinn í stóðsmölun, eða reiðtúr ætti það kannski að kallast frekar. Þreyta daginn eftir sem vill gjarnan vera. En ég fór í blóðprufu 1. okt og hgl er 124.. ennþá aðeins að lækka. Það verður að hafa það, það hlýtur að lagast aftur. Annars gengur allt sinn vanagang. Baldvin kom heim um helgina og skellti sé á stóðréttarball. Annars er búið að vera að plaga mig einhver axlarverkur.. sem nær reyndar alveg upp í haus og fram í fingur, það hlýtur að þurfa að mynda það. Kemur í ljós. Ég ét bara pillur og brosi út í annað. Annars er ég bara almennt í tilvistarpælingum þessa dagana. (og hef verið áður) En ég tel mig almennt vera friðelskandi og kurteisa. En svo gæti bara verið að ég sé það ekki eftir allt. En nú reyni ég að hemja mig og halda áfram að vera kurteis. Það á víst að bæta, hressa og kæta.

sunnudagur, 20. september 2015

SVO LANGT SÍÐAN SÍÐAST

Já það er aldeilis langt síðan ég hef skrifað hérna inn. Kannski er þetta staður þar sem ég get sett vangaveltur um heilsuna og geymt þær til að skoða síðar. En heilsan hefur annars bara verið frekar góð síðan síðast. Ég er farin að nota 3,75mg af sterum og 5 mg af sterum sitt hvort daginn og er búin að vera að gera það síðan um miðan ágúst. Í byrjun ágúst mældist hgl 130 sem er það hæsta sem ég hef komist í veikindunum og algerlega tala sem þykir vera NORMAL og það er ég mega þakklát fyrir. Ég lækkaði aðeins við síðustu mælingu sem var í byrjun sept en þá var ég 126 sem er líka mjög flott tala. Nú styttist í næstu mælingu og verður gaman að vita hver hún verður. kannski get ég farið í 3,75mg á hverjum degi. 7-9-13 !!!!! Það er reyndar alveg rosalega erfitt að minnka þessa stera. Mannig líður hreinlega eins og skít.. ef skít getur liðið. En það er mikil þreyta, og miklir verkir í líkamanum öllum, hausverkur og vanlíðan. Ég styrki þá bara verkjatöfluframleiðendur vel á meðan verstu verkirnir ganga yfir, en þetta tekur alveg 3-4 vikur að komast yfir hverja lækkun á sterunum. Og við erum að tala um 1,25 mg annan hvern dag..... En ef ég hugsa aftur í tímann þegar ég var að minnka úr 100 í 75 og svo 75 í 50 þá lá ég nánast út úr heiminum. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ég var veikari af blóðleysinu eða af sterunum. Auðvitað voru sterarnir nauðsynlegtir en megi allar góðar vættir styðja mig í því að þurfa aldrei aftur að nota steralyf.
Það er auðvitað ótrúlega margt búið að gerast síðan ég skrifaði hérna síðast. T.d. var á ferðinni hérna sumarið sem aldrei kom .... það hefur mikið verið talað um það á kaffistofum landans. Reyndar er aðeins búið að rætast úr því núna síðasta mánuðinn. En t.d. í dag er bara um 14 stiga hiti og sunnan gjóla. Sem er með því betra sem hefur verið. Það hefur varla verið útreiðafært vegna veðurs í sumar. En já.. Valgeir Ívar fór í unglingavinnuna og hafði gaman held ég. Baldvin fór í sauðburð að Ytra Bjargi í ca 3 vikur. Það var vel. Síðan fór hann í sumarvinnu hjá Húnaþingi vestra í sláttuhóp. Síðan tók allt u-beygju hjá honum um Verslunarmannahelgi þegar fjölskyldan fattaði að hann var ekki tilbúinn til að halda áfram í dreifnáminu þannig að foreldrarnir herjuðu út skólavist í VMA og þar fór hann 15 dögum síðar og hóf nám á Grunndeild matvæla og ferðamálafræða - held að það heiti ca það.  Hann býr núna á vistinni, er í herbergi með frænda sínum honum Haraldi og hefur það bara gaman. Er að læra að kokka eitthvað og ýmislegt fleira svona eldhús og matvæla tengt. Valgeir er orðinn stærri en ég og er eins og undanfarin ár alveg á fleygiferð í lífinu. Margar aðrar breytingar hafa orðið hjá fjölskyldunni sem ekki verður talið upp hérna. En over and out í bili.

föstudagur, 3. apríl 2015

02042015

Farinn vegur hljóðar svona: Blóðprufa í febrúar var 127.. og allt gott og blessað.. ég nennti ekki að fara í blóðprufu fyrr en rétt um daginn og þá var staðan orðin 121, Sigurður læknir bað mig að fara aftur fljótlega. Sem ég og gerði og þá var staðan 122. Allt á betri leið. ég er annars á leið til dvalar á Reykjalundi í 5 vikur og þá fer ég nú að verða Miklu betri. Ég tók mig reyndar á um 10. febrúar og hætti alfarið að borða sykur og hveiti og ýmislegt annað. Það hefur gengið ágætlega. En sykur er í öllu  öllu!!!!!  Hannes fór til útlanda í 2 vikur í mars á námskeið hjá Stoll verksmiðjunum. En Stoll eru frameliðendur prjónmavélanna  sem Hannes er að vinna við. Baldvin er kominn með æfingaleyfi hjá foreldrum til að keyra næstu mánuðina bifreið um götur landsins. Mér finnst þetta pínu skrítið. Hvaða bull gæti ég t.d. sagt honum um akstur... jú alveg heilmikið bull. En ég vona að það verði hægt að kenna honum að lokum hvernig þetta skal rétt gert, þrátt fyrir mitt bull. Pabbi er hjá okkur núna þau eru í viku ferð til islands m.a. til að mæta í fermingar og hitta ættingja og vini, já og hestana!!  en nú er ég nánast sofnuð zzzzzzzzz

þriðjudagur, 10. febrúar 2015

10.02.2015

Gleðilegt árið. Ég hélt að ég væri búin að skrifa inn hérna á árinu, en svo var víst ekki. Nýjast er að ég fór í blóðprufu í síðustu viku ca 3. feb og var hgl. 127 sem er alveg ágætt. Ég er ennþá á 5 mg af sterum síðan í byrjun des. Ég fór reyndar í stærri blóðpufu í janúar þar sem margt var mælt og er allt í lagi með allt og allt innan marka nema einhverja netfrumur sem voru eitthvað hærri en síðast. Það er samt allt í lagi. Eg hef ekki hugmynd um hvað þessar netfrumur snúast. Svo ég er víst bara ansi hraust. Ég náði að bráka rifbein í janúar en er bara orðin alveg góð í dag. Þar sem ég þurfti að vera heima í 2 daga alveg án þess að gera neitt (eftir brákið) þá skráði ég mig í fjarnám í fjölbrautaskóla. Alveg heil 3 fög og 9 einingar. Hvern munar um það. Maður vinnur nú bara til 13.00 og á þá eftir að fara út að labba og í hesthúsið (og heimilisverk innan sviga) og skúra og horfa á sjónvarpið og prjóna og slaka á !!!!! Það rúmast alveg innan þessara 20 tíma fyrir utan þessa fimm sem ég er í vinnunni. Ég er með einhvers konar kvíða fyrir því að gera ekki neitt. En samt geri ég ekki neitt af viti. ANyway. Þetta var ekki kvart heldur meira svona áminning til mín um ég ætti kannski að forgangsraða upp á nýtt.  HMM ég er alltaf að skrýtnast meira og meira með árunum. Þ.e. félagsfælnin eykst. Ég get verið alveg ótrúlega einmana innan um fólk, þ.e. mikið af fólki. Já eiginlega meira en bara svona 3 þá er mér farið að líða illa. Það er erfitt fyrir marga að skilja það því að auðviðtað er yndislegt að vera innan um fólk. En mér líður best með færri. Spurning um að fara að fara í einhverja stóra greiningu bara. Ég er farin að hallast að því að ég sé með athyglisbrest jafnvel með ofvirkni, líklega lesblind á einverju sviði (svona kannski reikniblinda), félagsfælni (einhverfa) og kannski bara eitthvað fleira. Og svo allt þetta líkamlega. En hver er annars ekki greindur á einn eða annan hátt. Bara spurning um að fá það skriflegt. Annars var hann Magnús sálfræðingur búinn að finna út að ég væri með jaðar persónuleikaröskun. Ég þarf líklega að fara að googla það. En það er kannski bara nákvæmlega það sem ég er búin að vera að skrifa hérna inn. HMM og kannski á maður ekkert að vera að setja svona hugsanir niður fyrir alþjóð. Kemur svosem engum við nema mér. Það styttist í að það verði gert við húsið okkar - held ég. (ef ég var ekki búin að skrifa það þá var semsagt keyrt á húsið í desember já og jappann líka) Við þurfum að taka rúmið og örugglega flest út úr hjónaherberginu á meðan. það verður örugglega allt út í ryki og sparsli og drullu. Næs að fara að fá iðnaðarmenn í húsið. Spurning hvort maður hleypi þeim nokkuð út. Best að láta bara klára að gera fataskápa og ýmislegt fleira sem þarf að fara að dytta að hérna innan húss.  Baldvin er annars á Króknum í staðlotu, kemur heim á föstudaginn þá fer hann að keppa í fótbolta á laugardaginn. Ekki eins og hann þurfi að læra blessaður þó að ég sitji flesta daga við að gera eitthvað í mínu námi. Annars var svo hringt frá REykjalundi áðan. Getur verið að ég fari inn í ca mars-maí. Það var tíminn sem ég gaf upp sem hentar mér. Annars er það ekki fyrr en í haust því að það er lokað hjá þeim í sumar.  Time will tell.  Best að láta staðar numið í bili. Meira ruglið í mér alltaf.