Í morgun þegar ég vaknaði fór ég að hugsa um veikindin mín.. Þessi ár sem liðin eru frá því að ég veiktist, hvernig það var að vera veik og muninn frá því hvernig ég var og hvernig ég hef það í dag. Þarna er himinn og haf á milli. Og ég er þakklát fyrir hver staðan er í dag.. svo þakklát. Í gærdag fórum við Hannes í göngutúr, ég gat sprettað upp brekkuna hjá hesthúsunum, (já það var erfitt), ég fór á hestbak á 2 hesta og svo í jólakaffi til Dýrunnar og Ársæls og þar var hlegið og hlegið (sem mér þótti annars erfitt) og svo komu gestir um kvöldið.... og ég gat þetta!!!!!! Ég bara gat þetta alveg, án þess að verða svoooo þreytt, eða fá svoooo mikinn hausverk eða geta kannski bara labbað einn hring hérna í Grundartúninu og svo ekki meira þann daginn. Fyrir utan það hvað þetta var erfitt fyrir eiginmanninn, synina, foreldra, systkyni og vini. Ég var ekki við stjórnvölin á eigin lífi. Eftir þessar hremmingar, sem ég tel að séu búnar. Þá ætla ég að stjórna mínu lífi sjálf. Ég ætla ekki að vera hrædd um að eitthvað geti gerst, eða vorkenna mér fyrir hitt eða þetta. Ég ræð mínum tilfinningum sjálf. Ég ætla að vera ánægð og þakklát fyrir hvað hver dagur ber í skauti sér. Ég er í það minnsta lifandi og bara nokkuð spræk. Þarf maður eitthvað meira? Ég ber heldur ekki ábyrgð á því hvernig öðrum líður, ég get hreinlega ekkert gert til að breyta líðan annarra. Þetta er í sjálfu sér val. Og val sem hver og einn stýrir fyrir sig. Ég finn samt að sl. ár hafði ég ekki val. Ég var fangi veikinda og lyfja. Nú er ég nánast lyfjalaus og líður betur. Þá er líka eins gott að njóta þess að vera lifandi og hress og tækla hvern dag eftir bestu getu. Ég óska öllum að geta þakkað fyrir það á hvaða stað þeir eru í lífinu í dag. Ef þeir eru ekki sáttir við hver þeir eru, þá vona ég innilega að þeir nái að taka smá naflaskoðun á sjálfum sér og finna út hvert þeir ætla í lífinu. Mitt líf er hér og nú með þeim sem eru mér kærastir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli