mánudagur, 5. maí 2014

5. maí 2014

Já og jæja. Það er búið að vera meiriháttar veður síðustu daga. Og við fórum út á sjó á laugardagsmorguninn með Dana afa á Eyri. Það var alveg æðislegt. Logn til að byrja með en hvessti svo aðeins þannig að það pusaði aðeisn yfir bátinn. Mér fannst það mega gaman. Og varð hugsað til þess tíma þegar sjórinn var eitt það ógnvænlegasta sem ég þekkti í mínu  lífi. Þá hafði ég aldrei farið á sjó!!! En fljótlega eftir að ég fór að fara í sjóferðir fann ég að ég gat treyst sjónum. Ég treysti mér reyndar ekki til að fara í sjósund eða stökkva fyrir borð. En kannski kemur það. En anyway þá var þessi veiðiferð skemmtileg, en ég held reyndar að ég hafi fengið smá sjóriðu seinna um daginn. Jáhh. svo var nú það. Helgin var annars tiltölulega róleg (hjá mér) en ég var að aðstoða Baldvin við að vinna við heimildaritgerð. Það var erfitt en jú líklega gaman. Ég man nú ekki mikið af því sem ég las (hljóta að vera sterarnir). En allaveg þá kláraðist ritgerðin. Valgeir var í Vatnaskógi með TTT og kom heim hás og rámur í gærdag nánast eins og eftir góða Verslunarmannahelgi í Vestmannaeyjum. Hann var mestmegnis hress með ferðina. Hannes fór í að rífa og tæta tré úr beðinu hérna fyrir sunnan hús. Færðu þau norður að hænsnakofa. Hænurnar voru sáttar með það að geta rótað í nýrri mold. En þær vilja alls ekki hanga inni í girðingunni sem er auðvitað nánast ónýt eftir veturinn. Við erum alltaf að reyna að gera einhver framtíðarplön en það er erfitt þar sem allt er svo óljóst með mig og mína heilsu. Hvort við eigum að selja jeppann (eða setja á sölu) og eins fellihýsið. Og fá okkur bara einn ágætis bíl. Það er ekki eins og það sé skemmtilegt að fara með mig í útilegur. Get bara ekkert gert. Þó ég gæti verið við að tjalda þá er ég bara ónýt stóran hluta dagsins. Get ekki tekið ákvarðanir um neitt. Og er ca kannski svona 1/4 af því sem ég áður var. Svo er búið að leggja inn beiðni á Reykjalund um innlögn þar. það er ekki vitað hvenær það verður. Hvort það verður í sumar eða haust eða vetur. Eins var Sigurður að tala um það í síðustu viku að láta taka miltað ef það gengi ekki að minnka sterana, sem við ætlum að halda áfram með eftir ca 10 daga Þá fer ég í að taka 7,5mg annan daginn og 5 mg hinn. (var örugglega búin að skrifa það hér). Nú ég var reyndar á starfsmannafundi þar sem ég var að melda mig í sumarfrí. En ég er komin með 11 vikur núna frá og með á miðvikudaginn kemur fram til ca 20 ágúst. Það eru ekki allar vikur. En ég ætla að koma inn í kringum mánaðmót. Eins og ég hef alltaf gert. Eins er ég tilbúin að koma inn ef vantar. Ég hlakka bara til að fara í þetta frí. Held að mér veiti bara ekkert af. Eins og veðrið úti er núna þá langar mig ekkert til að fara að vinna eftir hádegið. En það geri ég nú samt :-) Já og svo var hringt í okkur í gærkvöldi út af honum Huga. En ég auglýsti hann á Barnaland (Bland) um daginn. Það hringdu nokkrir þá en ekki svona sérlega áhugasamir. En þessi kona sem hringdi  í gær sagðist vera mjög áhugasöm og jafnvel ákveðin í að taka hann. Hún ætlar að hringja í mig í dag aftur. Ég veit samt ekki hvort ég get látið hann fara :-(  Ekki svona þegar á hólminn er komið. Ég veit að strákarnir verða MJÖG sorgmæddir. Og ég veit að ég verð það líka.... En ég hef daginn til að hugsa þetta. Ég treysti mér samt eiginlega ekki til að tala um þetta við strákana. En þessi kona hljómaði ansi vel og ég verð að segja að ég treysti henni mjög vel til að taka hann. Hann Hugi er samt svo góður félagi og huggari. Það að horfa í glaðleg augun hans lyftir manni oft ansi upp. Og hann er alltaf meira en tilbúinn til að vera hjá manni þegar á þarf að halda. Það eru ekki alltaf allir til taks eins og hann hefur verið. Hann er meira og minna búinn að passa mig síðast eitt árið. En við höfum verið ansi mikið ein heima. En hann hefur auðvitað sína galla. En það hef ég líka. Kannski væri betra að láta mig fara heldur en hundinn. Hver veit????? HMMM... en nú eru sterarnir að byrja að virka og hausinn að fara í kaos. Og ég held að ég ætti bara að setjast út í sólina :-) Skrítið hvað þetta blog kallar á mig stundum. Eins og það létti á mér að henda hérna inn hugrenningum og líðan. Vona að það særi engan sem les!!!!! Mig hlakkar annars til þegar fólkið mitt fer að týnast heim. Fríða Marý kemur um næstu helgi og svo eru bara rúmir 20 dagar þangað til pabbi og Helga koma. Svo er svo ótrúlega stutt þangað til strákarnir verða búnir í skólanum þetta árið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli