laugardagur, 17. maí 2014

17. maí

Gardínurnar eiga enn eftir að styttast.. ekkert gerst í þeim málum, eða allavega mjög lítið. Kökurnar átust og ég verð kannski bara að baka meira. Gaman að gera eitthvað GOTT :-). Valgeir er í Brekku og er búinn að vera síðan á miðvikudagskvöld, svo duglegur þessi drengur. Ég tók inn þvottinn og setti í þurrkarann. Það var ekki hægt að láta rigna meira á blessaðann þvottinn. Svo er búið að rigna annað slagið þannig að það hefur ekkert verið hengt út aftur, þrátt fyrir að ég hafi fjárfest í nýjum þvottaklemmum. Nú á ég reyndar þvott í vél og það rignir ekki svo það gæti vel verið að ég reyndi klemmurnar. Og reikna bara með að það rigni ekki í þvottinn í þetta sinn. Ég ætla að sækja Valgeir í dag/kvöld. Eftir því hvernig vinnst hérna á heimilinu. Ég hefði viljað hafa Valgeir lengur í sveitinni, en það er tónlistartími hjá honum á morgun. Uppbótartími fyrir þá tíma sem fallið hafa niður í vetur. Og líka undirbúningur undir tónleika og próf. Baldvin er svo að fara í "SKÓLAFERÐALAGIÐ" með stórum stöfum. En það er 4 daga ferð með bekkjarfélögunum. og það er margt sem á að gera þar. Paintball, Vestmannaeyjar, River rafting, bláa lónið og svo fullt fleira. Þvílík upplifun sem þetta verður. Ég veit ennþá ekkert um hvenær hann byrjar að vinna eða hvernig hann verður að vinna í sumar. það hlýtur að fara að koma í ljós. Hannes vinnur sína 10 tíma á dag og sinnir svo börnum, konu og búi að þeim 10 timum loknum. Veit ekki alveg hvernig þetta endar hjá honum. Verður líklega orðinn útbrunninn og yfirkeyrður innan fárra ára :-/
Af mér er svo alltaf það sama... gat troðið mér til læknis hér á hvt í vikunni og uppskar þar tilvísun í sónar (ekki ólétt). Ég er að fara á föstudaginn í næstu viku bæði í viðtal á Reykjalund og í sónar í Domus Medica. Það á að sóna á mér innyflin. Geir fannst eitthvað stækkuð í mér lifrin. Ég held að það sé alveg rétt hjá honum. En það er líka einn af fylgikvillum steranna :-( Ég veit ekki hvað þessir sterar gera EKKI. Reyndar held ég að þetta geti líka fylgt bara þessum blóðsjúkdómi. En ég er allavega farin að finna eitthvað til í hægri síðunni - og það er eitthvað sem er svona frekar nýtt. Ég er sem sagt að safna mér alls konar einkennum sem ég væri alveg til í að vera ekki að safna. Núna er ég annars að hugsa hvað ég eigi að fara að gera. á ég að setjast yfir gardínurnar.. á ég að skutlast í göngutúr eða á hestbak eða bæði. eða á ég að þrífa, hengja upp, reyta fífla úr beði, prjóna eða fara að sofa aftur. Ég sofnaði ekki fyrr en 3 í nótt og vaknaði 9.. svo ég hef oft sofið meira.
Já þetta er erfitt val. Sá á kvölina sem á völina!!!!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli