miðvikudagur, 21. maí 2014

21.5 2014



Svona mætti segja að komið sé fyrir mér. Þetta er Cushingoid syndrom. Eins og gerist þegar fólk þarf að taka stera. Reyndar getur þetta líka gerst ef eitthvað er að í líkamanum eins og ef nýrnahettur bila og slíkt.  en svei mér þá þetta er "aldeilis" flott. Væri gaman að lita myndina í regnbogans litum.

En ég bara rakst á þetta á internethlaupum og greip með og henti hér inn.
Annað er nú bara allt ágætt. Gardínurnar hengdust upp að lokum, svo nú getur hann Valgeir minn horft á sjónvarpið án þess að vera með sólina glampandi á tækið. Hann er svo kominn heim úr sauðburðinum drengurinn og hafði gott af - langar helst að koma honum aftur, en við látum sjá til hvað verður. Baldvin er í SKÓLAFERÐALAGINU . Hann fór á mánudagsmorgunn og kemur aftur annað kvöld. þetta eru 3 nætur og 4 heilir dagar. Verður líklega ævintýri sem munað verður eftir. Þvílíkt flott dagskrá og gaman hjá krökkunum. Ég sjálf er annars bara vöknuð (í bili) klukkan er ekki orðin fimm á miðvikudagsmorguni - eitthvað bogið við það finnst mér. En það er bara ekki á neitt að stóla með mig lengur. Ég ýmist vaki eða sef á hinum og þessum tímum sólarhringsins. Var annars í blóðprufu í gær og mældist hemóglóbínið 125 sem er að verða með hærri tölum 7-9-13. Guð má vita hvenær ég má reyna að minnka sterana aftur og einu sinni enn. Ég er farin að hallast að því að ég þurfi að vera á þessum skammti (7,5mg) forever :-(. En ég er annars að fara í læknisskoðanir á næstu dögum- alltaf hjá læknum (hrollur).... En á föstudag fer ég í sónar af innyflum, þar sem Geir fannst lifrin í mér eitthvað "stækkuð" og í blóðprufunni í gær voru tekin alls konar lifrarpróf. Ég vona að það komi samt ekki neitt illa út. Nú á föstudaginn ætla ég líka að fara í viðtal á Reykjalund. Það á að taka ca klukkustund en þar verður rætt hvort það muni henta mér að fara til þeirra í "meðferð" eins og ég segi hvort og hvernig kemur væntanlega í ljós á föstudaginn. Nú helginni verður svo eytt í Reykjavík þar sem Valgeir er að fara í körfuboltaæfingabúðir hjá KKÍ. Ég eiginlega hálf vorkenni honum (eða þannig) því að hann hefur varla komist á eina einustu körfuboltaæfingu í LENGRI tíma. Hann var eitthvað efins sjálfur um að hann ætti að fara af því að hann væri ekki "nógu" góður. En á æfingum er maður jú að æfa sig í að verða betri og væntanlega að læra meira. Svo hann tók það gott og gilt og hlakkar held ég bara til.  En þeir eru að fara tveir héðan frá Kormáki hann og Eysteinn.
Nú svo á ég aftur tíma hjá lækni á þriðjudaginn og þá hjá lækni hjá Tryggingastofnun, þar sem ég verð væntanlega skoðuð og yfirfarinn og svo er spurninginn hvernig skoðun ég fæ. Hvort það verður endurskoðun eða bara full skoðun. Nei djók.. þetta er út af örorkumati sem er víst bara orðin staðan hjá mér í dag. Ég held að það sé augljóst að ég mun ekki ná fullum bata á næstu mánuðum því að allt sem gerist í þessum sjúkdómi er að gerast svo hægt. Ég er reyndar að komast á þá skoðun að það mundi borga sig að láta taka miltað (þó það sé bara svona einu sinni möguleg aðgerð) því að það hefur verið að gagnast fólki (stundum) ekki endilega alveg út æfina en kannski í einhver ár. En þetta ástand að vera í líkama eins og þeim sem myndin er af hérna að ofan er eiginlega það sem reynist mér allra verst. Það er eitt að hafa allaf reynt að halda sér í formi svo að þessi líkamsmynd yrði ekki reyndin en að fá þetta bara á sig svona einn tveir þrír og það án þess að geta nokkuð að gert er ekki alveg það sem maður þarf á að halda. Og ég veit að ég á ekki að vera að kvarta því að ég gæti auðvitað hafa veikst af einhverju öðru og hefði þá kannski getað misst hönd eða fót - nú eða hreinlega drepist. En ég ætla samt að fá að eiga skoðun á þessu því að þetta er minn líkami sem um ræðir. Og það er bara sárt að þyngjast um 15-20 kíló án þess að geta spornað við á nokkurn hátt. Ég hef aldrei á minni æfi vegið svona mikið - ekki einu sinni á meðgöngunum og þá fannst mér ég nú vera þung. Já aumingja ég !!!!!!!
Ég er annars búin að vera í sumarfríi í tæpan hálfan mánuð- fór að vinna í gær. Og ég bara gerði ekki NEITT í fríinu. Jú gardínurnar saumuðust.... og gólfið moppaðist og ég fór held ég 2-3 út að labba. Og þvoði einhvern þvott. En ég fór aldrei á hestbak og ég gerði enga stórhreingerningu og annað bara svona slarkaðist. Einu skiptin sem eitthvað gerist hérna á heimilinu sem um munar er þegar Hannes tekur málin í sínar hendur. En þá verður allt shiny og flott. Og þá fæ ég samviskubit. Því að það er ekki eins og hann hafi ekki nóg annað með sinn tíma að gera.
En ég bý nú reyndar svo vel að vera með mjög lélegt minni svo að ég gleymi öllu fljótt. Hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. það er oft þannig að ég er að reyna að segja frá einhverju sem ég hef gert "t.d. einhverju sem var fyrr um daginn eða þá daginn áður" og ég hreinlega man ekki hvað ég hafði verið að gera. Þrátt fyrir að mér líði ágætlega dagsdaglega og mér finnist að ég sé með öllum mjalla. Þá er ég endlaust að gera vitleysur bæði í einkalífi og vinnu og man svo ekki eftir því að hafa gert hlutina :-( Það er alltaf eitthvað að dúkka upp í vinnunni sem ég hef gert - og já gert vitlaust. Þrátt fyrir að ég hafi vandað mig mikið og reynt að passa mig að hafa yfirsýn yfir allt þannig að allt sé rétt en það verður svo ekki raunin þegar til kemur.
Váá.. þetta er nú meiri kvartpistillinn. Greinilega margt sem hvílir á ... og kannski þess vegna sem ég vaknaði að nóttu til -en það er annars yfirleitt ekki svo.
Góða nótt!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli