laugardagur, 1. febrúar 2014

1. febrúar og nú á Beggi afmæli...

Síðan síðast------- Skrifaði Sigurði emil og hann svaraði og sagði að ekkert nýtt væri að frétta af blóðprufum... annað en allt í lagi og ekkert athugavert með skjaldkirtil. Hef ekki heyrt af blóðprufum hjá þorvarði jóni Löve gigtarlækni. En Sigurður gaf mér leyfi til að minnka stera niður í 10 mg sem er þá það lægsta sem ég hef farið í síðan við upphaf veikinda- TAKK FYRIR TAKK. Ég byrjaði í gær með minni skammt og leið ágætlega. Það sem af er þessum degi er ég samt frekar drusluleg. Með hálfgerðan hausverk og þreytt. En ég ætla að harka það af mér og gefa þessu bara löngutöng því að hingað eru mættir þrír galvaskir ellefu ára drengir og já komnir á 12. ár og stórir og sterkir eftir því. Ástæðan er sú að ég hafði aldrei mátt eða getu hjá mér til að leyfa Valgeiri að halda upp á 11 ára afmælið sitt í nóvember. En ég var búin að lofa honum að bjóða bestu vinunum í gistipartý þegar ég gæti... og um jólin LOFAÐI ég honum að það yrði í janúar... það hafðist að bjóða í gistipartýið í janúar en nú er kominn febrúar svo það var ekki seinna vænna:-) Ég er voða glöð að það hafi orðið af þessu. Þetta eru yndislegir strákar:-). En Baldvin fór í Kolugil enda var skilyrði þegar Baldvin var með sitt gistipartý að Valgeir færi að heiman svo að auðvitað var það skilyrði að Baldvin færi að heiman þegar Valgeir yrði með sitt gistipartý. Rétt skal vera rétt. Það er Þorrablót í Víðidal í kvöld og getur verið að Baldvin fari á það... kemur í ljós.  Hannes er á skyndihjálparnámskeiði sem stendur yfir í dag. Ég ætla að fara að drattast í búð og versla gúmmelaði fyrir drengina.
Ef ég hef orku seinna í dag þá ætla ég á hestbak. Fór á hestbak á miðvikudaginn (eða þriðjudaginn man ekki alveg) og fór þá á Snerpu (sem ætlaði ekki með mig lengra en hálfa leið) og svo á Garp sem vill helst fara lengra og lengra og lengra og hraðar og hraðar og hraðar. Ótrúlega ólík þessi hross. En alltaf jafn gaman að fara á hestbak samt. Heldur manni bara gangandi. Þrátt fyrir að ég ætti kannski ekki að fara á hestbak. En það er margt sem maður ætti ekki að gera... og væri heldur leiðinlegt að vera til ef maður gerði aldrei neitt sem væri ekki pínu bannað og pínu spennandi.... og ég bíð t.d. bara eftir tækifæri til að komast í að gera fleiri göt í eyrun :-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli