miðvikudagur, 19. febrúar 2014

19. febrúar

Blóðprufa í dag... 121 (120 komið til Reykjavíkur býst ég við). Fékk að fara tvisvar í blóðprufu samt þar sem annað glasið úr fyrri blóðprufunni fór út af sporinu og skemmdist. Ég er orðin svo vön þessu svo ég brá mér bara aftur niður á heilsugæslustöð og þar var tekið í þetta auka glas. Þetta er svolítið annað en fyrir 16 árum þegar ég var að fara í mínar fyrstu blóðprufur (ólétt að Baldvin)  .... þá þurfti ég að fá deyfikrem í olnbogabótina - fara heim og bíða og koma svo aftur. það dugði þó ekki til því að ég var nánast í yfirliði í góðan tíma á eftir. Nú bara sest ég og þær stinga nálinni í örið sem komið er og taka bara blóð. Ég stend svo upp og finn ekki fyrir neinu. Já smávegis vatn runnið til sjávar síðan þá. Helgin var tekin á rólegheitunum. Við Hannes fórum í einn reiðtúr en að öðru leyti var þetta svona helgi þar sem lítið og nánast ekkert var gert. Sem er eiginlega alveg eitthvað sem við könnumst ekki við. En það var samt bara nokkuð ljúft. Þessi vika og næsta helgi mun svo fara í flutninga á ýmiskonar dóti frá Strandgötu 1 út um hvippinn og hvappinn. Sumt fer þangað og sumt hingað og sumt niðureftir og sumt uppeftir. En hvert sem það á að fara þá fer það eitthvað og einhvern veginn. Við Hannes byrjuðum klukkan 8 í morgun og vorum þangað til hann fór að vinna.. Hann fór í hádeginu og svo fórum við eftir kvöldmat ásamt Birki Þór sem kom og hjálpaði okkur. Það var ýmislegt týnt til sett á kerru og keyrt upp í hesthús. Kemur í ljós hvað verður mikið gert á morgun. það verður víst bara að hafa það þó að maður taki kannski hluti sem ekki eiga að fara því að ekki þekki ég hvað hver á.
En annars skrifaði ég honum Sigurði mínum bréf í dag og bað hann endilega um að hringja í mig. Ég er ekki búin að  fá neitt út úr blóðprufunum frá Þórarni og ég hef heldur ekki fengið neinar almennilega upplýsingar um allar þessar blóðprufur sem ég hef verið að fara í þó að ég fái alltaf hemóglóbíntölurnar en þá eru fullt af fleiri tölum sem eru skoðaðar og þær geta gefið upplýsingar um hver staðan er á eyðingunni. Hvort hún er hröð eða ekki. Það segir sig kannski sjálft að eyðingin er ekki mjög hröð.. en eyðing er það engu að síður. Þar sem ég er alltaf AÐEINS að fara niður á við.  Það eru alltaf svona upp og niður dagar hjá mér... og satt best að segja verður að segja að síðustu dagar hafa verið meira niður heldur en hitt. Maður er að horfa á rúma 9 mánuði frá því að ég fór inn á sjúkrahúsið á Akranesi. Og líklega rúmt ár frá því að þetta byrjaði fyrst. OG HVAÐ....... ég sé ekki að þetta sé að klárast næsta hálfa mánuðinn... og ekki næsta hálfa mánuðinn eftir það. Tel mig heppna ef þetta klárast á næsta ári.... EF já EF ég get haldið áfram að keyra þetta svona niður á þessum sterum. en ég er samt ekki alveg að sjá það :-(.Já stundum er maður bara niðurdreginn og dapur og það verður að vera leyfilegt. Stundum er maður ekki niðurdreginn og dapur og það er alltaf betra... fyrir alla ekki bara fyrir mig. En ég hef yfirleitt staðið og brosað þó að það hafi verið leikur eða blekking. En eins og ég segi þá hefur sú ekki verið raunin síðustu daga. en kannski verð ég bara DJÖFULL góð á morgun.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli