sunnudagur, 10. nóvember 2013
6 mánuðir segi og skrifa
Já afmæliss. Þann 10. maí fór ég á Akranes svo það eru komnir 6 mánuðir af veikindum. Ekki degi minna :-( Ég veit ekki hvort það er eitthvað á þessum tíma sem ég get þakkað fyrir,, þ.e. það er svo oft talað um að veikindi opni eitthvað fyrir fólki, það sjái sig í nýju ljósi og kunni að meta styrkleika sína. Ég get af heilum hug þakkað fyrir fjölskyldu mína og vini þar sem enginn hefur skorast undan því að standa við bakið á mér og okkur. Alveg sama hvað við höfum þurft að biðja um. Auk þess sem ég veit að þetta er ómælt álag á þá sem næst manni standa. Ég get bara ekki fundið neitt sem til betri vegar hefur farið hjá sjálfri mér á þessum tíma. Held kannski að þegar ég var sem veikust hafi ég kannski verið þægilegust viðureignar... en ég hef svo sannarlega ekki verið það síðustu vikurnar. Ég þakka öllum umburðarlyndið!!!! En til mín kom í 3 daga í röð kona sem hjálpaði mér á sinn hátt. Ég er meira en þakklát fyrir það og ég veit um og hef verið látin vita af því að fólk hefur beðið um hjálp fyrir mig eftir óhefðbundnum leiðum. Þ.e. t.d. að handan eins og sagt er og í eitt skipti talaði ég við mann í Þýskalandi sem var boðinn og búinn að hjálpa mér á sinn hátt. Ég held að ég hafi hugsanlega verið minn versti óvinur samt sem áður á þessum tíma. En nóg um það. Um helgina var leikfélagið hérna með óhefðbundið leikverk í gangi eða svokallað súpuleikhús. Hannes var búinn að vera að vinna við verkið sem ljósamaður og hafði því verið í burtu í nokkur kvöld til að græja það ásamt fleirum auðvitað. Ég ákvað að drífa mig á verkið og þótti svo gaman að ég fór bara 2x þ.e. á báðar sýningarnar sem voru :-) Já þegar ég loksins drullaðist út á meðal fólks þá bara gat ég ekki hætt. En þetta var mjög skemmtileg sýning ásamt því sem súpan var góð og það var bara virkilega gaman að sjá annað fólk. En þetta var kannski smá sárabót fyrir undanfarna 6 mánuði þar sem ég hef varla farið út úr húsi á eitthvað sem kallast menning nema auðvitað Tenerife ferðin sem var auðvitað FRÁBÆR. Auðvitað stóðu allir sig líka vel í leikritinu en auk Hannesar voru t.d. Ína Björk og Elísa Ýr að leika og Pési var tæknimaður og svo fullt af fleira góðu fólki sem lagði sig fram og stóðu sig virkilega vel. Til hamingju með það þið öll :-) En jæja klukkan komin yfir miðnætti einu sinni enn og ég hér í tölvunni. Það líður að næstu blóðprufu þ.e. á miðvikudaginn. Verður gaman (eða ekki) að vita hvað kemur út úr henni. Ég er bara ekki sátt við hvað ég er kraftlaus síðustu daga. Held bara að ég sé orðin ímyndunarveik yfir þessu öllu saman. En þetta fer að verða barningur við að koma sér aftur í gang eða form þar sem ég hef bætt á mig ófáum kílóum samfara því að vöðvarnir eru orðnir rýrari og allar hreyfingar eru bara töluvert erfiðar!!! Ég á ekki einu sinni eftir sigg á iljunum...................
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli