laugardagur, 27. júlí 2013

Frí

Hvort sem einhverjum datt það í hug eða ekki þá fór ég í FRÍ. Hvernig er hægt að fara í frí þegar maður er í fríi og er búinn að vera í fríi frá 10. maí.? Já maður spyr sig!!! En það atvikaðist nú samt þannig að ég fór í Frí frá heimilinu... manni, sonum, hundi og hænum (eða gaf þeim frí frá mér). Ég fór með mömmu og Gumma suður í Nónborg (segi og skrifa Nónborg og kýs það nafn) á mánudaginn var. Það spáði ofsa góðu veðri fyrir sunnan og hálft í hvoru var ég komin með kvíða fyrir því að vera hérna á staðnum á meðan Unglistarhátíðin væri. Mig langaði bara EKKERT að hitta fólk sem er komið til að hafa gaman saman og njóta þess að vera hresst og kátt yfir hátíðina. Ég sá bara einhvern veginn ekki framúr því að vera hérna á þessum hátíðis dögum eins og staðan á mér er þessa dagana. Ég kallast sjálfsagt ekki fyrirmyndar eiginkona eða móðir og sérstaklega ekki þar sem Hannes var búinn að taka sér sumafrí þessa viku alla til að njóta hátíðarinnar með "mér" eða þeirrar konu sem ég ætti að vera - ásamt fjölskyldu og vinum sem hafa hrannast norður. Auk þess er ættarmót hjá hans ætt - af Brautarlandskyni sem höfðu ákveðið að hittast hérna uppi í Kirkjuhvammi. Ég beilaði bara á þessu öllu. Pakkaði niður í nokkrar töskur... sæng í eina.. hreinlætisdót í eina.. smá-föt í eina og LYF í eina. Svo var rúllað suður. Þó það gleðji ekki alla þá voru þetta sæludagar (fyrir mig). Mamma, Gummi, Sigfús og Inga stjönuðu við mig á allan hátt. Ég held varla að ég hafi lyft fingri eða dýft hendi í vatn. Nema þá til að servera sjálfa mig (og fékk það þó varla) og svo stöku salernisferðir eins og gert er ráð fyrir skv. lögum og ráðum. Hitinn var alla dagana yfir 20 gráður og sól og alger blíða. Ég náði mér í töluverðan lit (svolítið rauðann meira að segja) las eitt stk bók og er langt komin með lopapeysu. Fór nakin í sturtu undir berum himni (já alveg satt) buslaði í "heita" pottinum með fiskamunstrinu og borðaði úti alla dagana þann besta mat sem hægt er að borða úti og eldaður var mikið til af Sigfúsi. Og hann er alveg magnaður kokkur hann Sigfús segi það og skrifa. Það komu líka nokkrir gestir sem var gaman en gott að geta svo bara dregið sig í hlé þegar maður varð þreyttur og leyfa gestunum að spjalla við húsbændur Nónborgar. Já svona leið nú vikan í algleymi og sjálfselsku. 
Hannes var semsagt einn heima með strákana í sínu fríi. Baldvin var í unglingavinnunni og Valgeir var mikið með Mikael sem kom í sveitina. Ragnar Friðrik kom svo og var hjá þeim frá föstudegi og er ennþá hér og Valgeir fékk að fljóta með Malin í sveitina áðan þegar hann var búinn að fá nóg af stússi Unglistar ásamt samveru með Mikael og makrílveiðum sem stóðu víst eitthvað yfir líka :-).
Hannes var svossssem ekkert sérstaklega í fríi þannig, því að ég var nýfarin þegar athugulir starfsmenn sambýlisins tóku eftir því að hænurnar okkar höfðu flutt lögheimilið yfir á sambýli fyrr í sumar (ég vissi það nú reyndar alveg) en þær höfðu víst hertekið grillið og notuðu það sem hænsnaprik ásamt húsgögnum. Og þetta gat víst ekki gengið svona lengur. Hannes fór því í að gera nýja girðingu í kringum hænsnakofann  auk þess sem hann hafði slegið og rakað túnið fyrir ofan Þytsheima um síðustu helgi. Það rúllaði Vignir frændi svo í vikunni svo Hannes nýtti fríið sitt í að keyra rúllunum norður á blett þar sem  við geymdum rúllurnar í fyrra.
Svona hefur þessi vika nú liðið hjá mér og mínum.... Hápunkturinn er nú samt líklega að ég fór í blóðprufu í Borgarnes á miðvikudaginn (24.07.) og fékk niðurstöðuna á fimmtudaginn. Hemóglóbínið er ennþá 90 og hefur þá verið að fara frá því 15.07 úr 88 upp í 91 þann 18.07 og svo í 90 núna 24.07. Engar dásemdarfréttir það. Og einhvern veginn bara status quo. Ég bíð auðvitað bara eftir því að heyra frá honum Sigurði Yngva fljótlega þó ekki væri nema til að vita hvenær ég á að fara í næstu blóðprufu. Ég veit svosem að ég fer ekki seinna en á miðvikudaginn kemur en svo kemur líka Verslunarmannahelgin svo þá er aftur orðinn langur tími að bíða. Sérstaklega ef ég hvorki hækka í blóðinu né lækka í sterunum.   En skál í bingókúlum. Nú er ég alveg hætt að bulla enda kominn tími fyrir flesta að fara á BALLIÐ með BUFF!!!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli