sunnudagur, 27. desember 2015

27.12.2015

Í morgun þegar ég vaknaði fór ég að hugsa um veikindin mín.. Þessi ár sem liðin eru frá því að ég veiktist, hvernig það var að vera veik og muninn frá því hvernig ég var og hvernig ég hef það í dag. Þarna er himinn og haf á milli. Og ég er þakklát fyrir hver staðan er í dag.. svo þakklát. Í gærdag fórum við Hannes í göngutúr, ég gat sprettað upp brekkuna hjá hesthúsunum, (já það var erfitt), ég fór á hestbak á 2 hesta og svo í jólakaffi til Dýrunnar og Ársæls og þar var hlegið og hlegið (sem mér þótti annars erfitt) og svo komu gestir um kvöldið.... og ég gat þetta!!!!!! Ég bara gat þetta alveg, án þess að verða svoooo þreytt, eða fá svoooo mikinn hausverk eða geta kannski bara labbað einn hring hérna í Grundartúninu og svo ekki meira þann daginn. Fyrir utan það hvað þetta var erfitt fyrir eiginmanninn, synina, foreldra, systkyni og vini. Ég var ekki við stjórnvölin á eigin lífi. Eftir þessar hremmingar, sem ég tel að séu búnar. Þá ætla ég að stjórna mínu lífi sjálf. Ég ætla ekki að vera hrædd um að eitthvað geti gerst, eða vorkenna mér fyrir hitt eða þetta. Ég ræð mínum tilfinningum sjálf. Ég ætla að vera ánægð og þakklát fyrir hvað hver dagur ber í skauti sér. Ég er í það minnsta lifandi og bara nokkuð spræk. Þarf maður eitthvað meira? Ég ber heldur ekki ábyrgð á því hvernig öðrum líður, ég get hreinlega ekkert gert til að breyta líðan annarra. Þetta er í sjálfu sér val. Og val sem hver og einn stýrir fyrir sig. Ég finn samt að sl. ár hafði ég ekki val. Ég var fangi veikinda og lyfja. Nú er ég nánast lyfjalaus og líður betur. Þá er líka eins gott að njóta þess að vera lifandi og hress og tækla hvern dag eftir bestu getu. Ég óska öllum að geta þakkað fyrir það á hvaða stað þeir eru í lífinu í dag. Ef þeir eru ekki sáttir við hver þeir eru, þá vona ég innilega að þeir nái að taka smá naflaskoðun á sjálfum sér og finna út hvert þeir ætla í lífinu. Mitt líf er hér og nú með þeim sem eru mér kærastir.

föstudagur, 25. desember 2015

25.12.2015

Gleðilega hátíð allir sem einn. Nú sit ég hér á jóladagsmorgni og hugleiði með sjálfri mér. Úti er logn og 7 stiga frost. Alveg ofsalega fallega blá birta úti eiginlega alveg ótrúlega falleg. Svona nánast eins og draumur það er svo fallegt að sitja hérna í eldhúsinu og horfa út um gluggann minn stóra. Það er enginn á ferli, enda liggja vonandi flestir ennþá undir sæng og kúra og hjúfra sig að sínum drumahetjum, hvort sem þær eru raunverulegar eða ekki. Aðfangadagskvöldið var notalegt með strákunum mínum þremur. Það er gaman að spá í hvað hlutirnir breytast mikið á milli ára. Matartíminn tók rúmlega hálftíma (var áður mun styttri), og svo var hjálpast að við að ganga frá. Valgeir fór reyndar í að raða pökkunum undir tréð, en það var enginn með neinn asa eða æsing þetta árið. Eða svona þangað til við fórum að opna pakkana. Valgeir byrjaði á því að opna fyrsta pakkann... sem reyndist svo vera til Baldvin en ekki hans sjálfs ..... haha við hljógum mikið, sem betur fer varð enginn sár. En Baldvin fékk bara að opna Valgeirs pakka í staðinn. Já hér er alltaf mikið fjör. Við erum innilega þakklát fyrir kvöldið, matinn góða og gjafir allar. Og að sjálfsögðu kökuna hjá Helgu og pabba, en þangað röltum við þegar búið var að opna pakkana. Baldvin galdraði reyndar fram mynd til að horfa á um kvöldið Home alone, það var bara gaman að því :-). Nú er stefnan svo tekin á að renna í Borgarnes til mömmu og Gumma og eyða stund með þeim :-). Svo gaman að því hvað lífið býður manni upp á nýtt og spennandi frá tíma til tima. Þannig að nú er Hannes kominn fram og þá tekur við að vekja ungu mennina, það tekur rúmlega 2 mínútur,, svo verður bara sjænað sig til og brunað suður yfir heiði. Jólaknús á alla sem reka augu í þetta bull í mér.

mánudagur, 21. desember 2015

21.12.2015

Styttist í jólin ennþá..... og við byrjuðum að mála í gær... Eða Hannes byrjaði að mála. Málaður var 1 veggur í stofu alveg inn í eldhús og þar út í horn, yfir og undir eldhúsinnréttingu. Seinni umferð á hluta þess sem málað var í gær verður máluð í dag. Ég stóð svo með pensil og sletti á nokkra hurðakarma og gluggakarma akrýllakki. Það er hálfgerð hreingerning í því, enda allt út í strikum eftir fótbolta hér innanhúss. Hve nett er það :-) Allaveg er líf í húsinu. Nú eru allir komnir í jólafrí. Baldvin er kominn heim og fékk vinnu í sjoppunni í nokkra daga, það var aldeilis frábært. Valgeir fór í Kolugil strax eftir að hann var kominn í jólafrí og stoppaði þar í 2 sólarhringa. Þau eru alveg frábært að leyfa honum að koma í heimsókn:-) Ég náði mínum prófum... 7 í fél 303, stjórnmálafræði, 8 í upp 103 og 8 í sál 203, þroskasálfræði. Þannig að í ár er ég búin að næla mér í 24 einingar í framhaldsskóla og ég er meira en sátt við það.
Ég er búin að hafa samband við námsráðgjafa í FNV og hún gefur mér upp að ég eigi 31 einingu eftir. Þar af eru reyndar 7 stærðfræðieiningar, eðlis og efnafræði og landafræði, en annars er það nánast eingöngu uppeldis, og sálfræði sem eftir er. Ég veit ekki alveg í hvaða röð ég á að taka þetta. Sumpart vil ég fara að byrja á stærðfræðinni, en sumpart langar mig til að fresta henni !!!!! Ég veit, hika er sama og tapa. En ég er helst á því að ég reyni að taka einn stærðfræðiáfanga og kannski uppeldisáfanga eða sálfræðiáfanga núna eftir jólin. En mig langar rosalega til að klára þetta vorið 2017, það er reyndar frekar strembið held ég. Ég veit ekki hvort ég get tekið áfanga í sumarskóla í sumar. Það er svo margt sem stendur til í sumar. Ég ákvað reyndar líka að fara í rækilega naflaskoðun á ýmsu hjá sálfri mér um daginn og er að vinna í því þessa dagana. Ég fór af stað með ákveðið verkefni í huga, en ég veit ekki hvort ég get klárað það á þann hátt sem ég hugsaði mér. Ég er að reyna að komast að því hjá sjáflri mér hvort ég yrði sátt við að taka skrefið, annað hvort að hluta eða heild, en það eru margar blendnar tilfinningar í gangi. Mér hefur hins vegar verið ótrúlega létt eftir að ég byrjaði ferlið, en hvort það verður jafn mikill léttir til lengri tíma bara veit ég ekki og er helst hrædd um að svo verði ekki.

sunnudagur, 13. desember 2015

13.12.2015

Hér er ég vakandi klukkan 8 á sunnudagsmorgni. Er búin að vera vakandi síðan kl. 6.00 þegar Baldvin var að koma heim. Ég er nú reyndar að verða svolitið syfjuð, kannski halla ég mér bara aftur :-) Hve nice væri það. En já ég fór í blóðprufu í vikunni og hgl er komið upp í 128. Sem er hæðsta tala að mig minnir að hafi komið síðan ég veiktist. Ég var samt farin að halda að ég væri að lækka en ekki hækka þar sem ég var komin með einhver einkenni, sem mér fannst óþægileg. En það hefur líklega bara verið vöðvabólga og prófstreita. Nú eru prófin búin og mér finnst að ég hafi allan tíman í heiminum til að gera hitt og þetta. Og það á allt eftir að hafast og koma jól eftir ca 10 daga. Ég var annars í Uppeldisfræði 103 og Sálfræði 203 (þroskasálfræði) og Félagsfræði 303 (stjórnmalafræði). Þetta var frekar strembið að vera í 3 fögum með vinnu en hafði þó. Nú er bara spurning hvað ég tek eftir áramót. Ég þarf að heyra í námsráðgjöfum með hvert framhaldið verður svo að ég klári þetta kannski á komandi árum. Annað er svosem ekki markvert í bili:-)