Gleðilega hátíð ALLIR. En í "dag" er kominn annar í jólum,, þ.e. við erum komin fram yfir miðnætti svo jóladagur er liðinn. Síðustu þrír dagar hafa verið alveg yndislegir:-) Þorláksmessuhittingurinn hér á þessu heimili eins og undanfarin ár. Og tókst með ágætum. Skatan góð eins og alltaf og þrátt fyrir að það örlaði á velgju um morguninn - eða einhverjum svona kvíða fyrir að vera að fara að borða þennan mat þá er maður alltaf jafn sólginn í þetta þegar ofan í pottana er komið mmmmm. Hangikjötið svo soðið á eftir og öll lykt úr sögunni (eða svona nánast). Ragga og Pési kíktu svo til okkar aðeins seinna um kvöldið. Annars var komið leiðinda veður og er enn og verður næstu daga, þó það spilli nú engri gleði í sjálfu sér. Nú en á aðfangadag þá fórum við í möndlugraut á Höfðabrautina sem að í ár var örlítið frábrugðið venju þar sem Ína amma kom ekki norður um jólin. En Tómas fékk möndluna í 1. skipti og flestir sátu sáttir eftir með sinn graut og enga möndlu. Það verður mandla að ári :-). Nú svo tók við alger slökun á heimilinu þar sem við eiginlega bara biðum eftir því að fara að elda sem gekk svo samkvæmt venju bara mjög vel og smakkaðist kea hryggurinn alveg prýðilega og kartöfflusalatið sem ég gerði eftir engri uppskrift var víst það besta sem synir mínir hafa smakkað!!!! Takka fyrir það... en glætan að ég geti gert aftur eins en það verður bara að hafa það. Gott að það var gott í þetta skiptið. Að þessu sinni sáu strákarnir okkar um að taka af borðinu matinn og sáu um mestan frágang annan en uppvaskið. Orðnir svo duglegir.... og svo sóttu þeir pakkana á meðan við kláruðum. Vel tókst til með að taka upp flesta pakkana en þó átti Baldvin í smá vandræðum með einn pakkann en Valgeir var eins og hraðlest og nánast búinn með alla sína á meðan Baldvin tók upp sinn fyrsta. Við höfðum með samkomulagi við þá orðið ásátt um að þeir gæfu hvorki hvor öðrum eða okkur og þá ekki við hvort öðru jólagjöf. þ.e. aðra en þá að allur peningur sem hefði farið í þessar gjafir fóru í gjafir frá okkur til þeirra og ég verð að segja að svipurinn á Valgeir þegar hann opnaði sinn pakka var alveg þess virði að hafa þennan eina pakka veglegri og sleppa við hina pakkana. En hann var SVO glaður að það var alveg yndislegt. Og að sama skapi var Baldvin ánægður og er alltaf að verða ánægðari og ánægðari. Þannig að þetta var alveg þess virði. Þegar vel var farið að slakna á mannskapnum þá röltum við hérna niður fyrir til pabba og Helgu og fengum heimagerðan ís og kökur sem var sko ekki af verri endanum :-). En dagurinn í dag hefur annars verið í miklum rólegheitunum. Sofið fram að hádegi og sofið eftir hádegi og svo sofna ég auðvitað ekki núna en það verður að hafa það. Á morgun kemur nýr dagur með nýjum æfintýrum.
Júmm svo er nú það. Ég fór svo annars í blóðprufu á mánudaginn (Þorláksmessu) þar sem niðurstaðan var hemóglób 113 (gæti þá verið 112-114 skv. Landspítalanum) sem er lækkun frá síðustu mælingu sem var reyndar fyrir ca 10-12 dögum þannig að lækkunin er ekkert mikil per ce. En ég skrifað honum Sigurði póst með niðurstöðunni og hann hringdi í mig um hádegið á aðfangadag. Hvenær fá þessir læknar eiginlega frí??? En ég var og er svosem oft búin að segja honum að ég sé eiginlega alveg búin að taka nóg af þessum sterum og að mig langi til að reyna eitthvað annað ef þeir ekki dugi til þ.e. ef ég get ekki minnkað skammtinn. En það er greinilega orðin staðan í dag... ég á ekki eftir að geta minnkað skammtinn.... og hann bað mig um að hækka skammtinn núna um sinn upp í 20 mg (held hann hefði viljað að ég tæki meira) sem ég auðvitað gerði og geri... finnst ég strax orðin pínu arrig... en svo á ég að fara í blóðprufu aftur á föstudaginn og senda honum töluna þá ég á líka að fara í lungnaröntgen hérna á föstudaginn og láta senda honum myndirnar. Svo verður hann í sambandi við mig þegar hann er búinn að fá niðurstöðurnar og ef ekki verður breyting til batnaðar þá ætlar hann að fara í að gefa mér þetta immúnóglóbúlín sem búið var að nefna fyrr í sumar. Og það bara mjög fljótlega. En það á að laga stöðuna í líkamanum hratt og vel en það er samt bara eitthvað sem dugar í 3-6 vikur. Á þeim tíma á samt að ákveða hvað verður í framhaldinu þ.e. hvort ég fer í aðgerð til að fjarlægja miltað eða og já skoða hvað gæti verið næst í stöðunni. Þannig standa nú málin í dag þann 26. desember 2013. Ég komin með hemóglóbín sem ég man ekki hvenær ég var síðast í og steraskammt sem ég var síðast í sennilega í október.... Hvað verður svo næstu daga og vikur á eftir að koma í ljós :) En aftur og enn innilega gleðilega jólahátíð ALLIR!!!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli