laugardagur, 30. apríl 2016

30.04.2016

Maður er ekki alltaf besta útgáfan af sjálfum sér og maður getur ekki alltaf verið öllum öðrum til geðs. Sama hvað það lætur manni líða illa. Kannski ekki besta byrjunin á þessum pistli en svona er hún samt. Undanfarnir dagar búnir að  vera awesome svo ekki meira sé sagt. Búin að ferma Valgeir Ívar og búin að fara í náms- og kynnisferð til Þýskalands. Hvoru tveggja var algerlega meiri háttar að upplifa. Fermingin gekk svo vel og veislan var alveg súper :-) Takk fyrir það allir. Svo var skundað til Þýskalands og þar var líka gaman og súper. Meira að segja alvega frábært. Góðir dagar með frábæru fólki, bæði samstarfsfólki og sambærilegu fólki í Þýskalandi. Þeir sem tóku á móti okkur hjá Bautzen, þ.e. starfsfólk sveitarfélagsins og stofnanna þess stóðu sig meira en vel. Starfsfólkið okkar stóð sig líka vel. Og að sjálfsögðu sveitarstjórinn og við kórinn (haha rímar) Það sem við græddum á þessari ferð verður seint metið til fjár. Samkennd hópsins, að læra og kynnast hvert öðru, hlátur og gleði ásamt öllu öðru sem við upplifðum sem hópur getur ekkert annað komið í staðinn fyrir.
Ég er annars búin að vera nokkuð bara hress, hef ekki farið í blóðprufu síðan í byrjun mars og finnst svolítið eins og allt sé nokkurn veginn í lagi. Svona nokkurn veginn. Ég er allaveg ekki verri en margir aðrir og takk fyrir það. Næstu dagar verða pínu hektískir eins og svo margir aðrir dagar. Verkefnaskil, próf, sækja Baldvin á AK, fara með VÍH til augnlæknis, og svo einhver axlaraðgerð á ég um mig frá mér til mín. Þá getur nú vorið hafist... Já vor þann 19. maí og í nokkrar vikur þar á eftir, já eða allavega þangað til ég verð komin á ról aftur og búin að finna mér eitthvað að gera. Hvað sem það nú verður. Áframhaldandi nám á leið til stúdentsprófs, skráning í háskóla nú eða bara "ekkert". Allavega verð ég aldrei að gera EKKI neitt það er alveg pottþétt. Það er held ég bara svo rosalega leiðinlegt.
Valgeir
 
Bautzen

föstudagur, 15. apríl 2016

15.04.2016

Já nú líður að fermingu yngri sonarins. Valgeir Ívar verður fermdur á sunnudaginn. Það eru allir svo hjálpsamir og tilbúinir að taka þátt að ég er alveg klökk. Já og þakklát. Við klárum þetta lífsverkefni örugglega með stæl:-) Annars er bara búið að vera stuð hjá okkur. Partý í hesthúsinu og reiðhöllinni og mikið búið að fara á hestbak og gera og græja. Ég hef ekki farið í blóðprufu síðan síðast, en fer nú örugglega að fara. Annars virðist vera hellingur af blóði í mér þessa dagana, því að ég skar mig aðeins og það er bara alltaf að blæða úr sárinu. Það hefði líklega ekki gerst fyrir ca 2 árum síðan. Svo það er gott að geta glaðst þegar maður meiðir sig haha. Ég er samt líklega að fara í axlaraðgerð í maí... já hlakka kannski ekki svo mikið til þess:-( En eitthvað á að laga, þannig að ég verði væntanlega betri heldur en ég hef verið. Þrátt fyrir að vera búin að færa músina yfir í vinstri hendi, þá eru stöðugir verkir og doði og dofi alltaf til staðar ásamt ýmsu öðru. Ég má ekki vinna í nokkrar vikur, og það finnst mér mjög erfið tilhugsun. Ný byrjuð að komast á nánast fyrra skrið þá er sett stopp. Enginn prjónaskapur og engir reiðtúrar.. Hvað á ég eiginlega að fara að gera????? Sennilega verð ég að byrgja mig upp af bókum og vonast svo eftir góðu veðri þannig að ég geti verið úti á palli og lesið. Þetta er jú hægri höndin!!!!! En anyway, það verður betra þegar það verður orðið betra. Ég ætla allavega að ferma og fara í eitt stk. utanlandsferð til BAutzen og Dresden áður en þessi aðgerð verður framkvæmd. Og hana nú. Aðrir eru bara nokkuð hressir í fjölskyldunni og margt komið í betra horf en var um tíma. Sem er alveg frábært. En nú ætla ég að halda áfram að hugsa um fermingarundirbúning....

þriðjudagur, 5. apríl 2016

04.04.2016

Óánægja, óánægja, óánægja.... í dag er fólk búið að vera mjög óánægt. Það finnst mér afskaplega leiðinlegt. Mér finnst afskaplega leiðinlegt að fólk sé reitt, auðvitað eiga allir rétt á að koma fram með sínar skoðanir, en þessi óánægja og reiði dregur mig niður og gerir mig dapra. Það er þá verkefni hjá mér að komast út úr því að láta þessa óánægðu og reiðu skemma fyrir mér mína annars góðu daga. Það hafa verið margir slæmir dagar hjá mér, en ég hef ekki haft unun af því að útvarpa því eða sjónvarpa. Við missum svo mikið taktinn við lífið með því að vera óánægð og reið. Í dag er ég svo þakklát fyrir að vera betri til heilsunnar, já svoooo þakklát. Ég er að kynnast lífinu aftur á nýjan hátt eða kannski frekar að taka aftur upp gamla lífið mitt. Lífið sem ég lifði fyrir veikindin. Mig langar bara til að vera þakklát fyrir það hvernig heilsan mín er í dag og fyrir það hvað ég get gert í dag sem ég gat ekki gert fyrir ótrúlega stuttu síðan. Hvort einhver á pening einhversstaðar (og hvað eru það svosem margir) getur bara ekki verið eitthvað sem ég má láta draga mig niður á eitthvert plan reiði og óánægju. Lífið er yndislegt. Það er að vora, sólin er komin hátt á loft, við lifum á Íslandi. Við höfum svo margt að þakka fyrir. Eða allavega ég!!!! Ég vildi svo að fólk gæti sleppt því að berja tunnur fyrir framan Alþingishúsið.. Fólki hlýtur að líða mjög illa, og að sjá ung börn inn á milli. Hvað er það sem þetta fólk vill. Vill það peningana sem hluti þjóðarinnar á, og hefur eignast með einhverjum hætti í gegnum lífið, vill það fá þessa peninga fyrir sig? Er það betra? Ég spyr mig. Peningar, hvað eru peningar... hvað gerum við við peninga. Hve mikið af peningum er nóg. Peningar eru völd... Viljum við öll vera við valdstólinn af því að við eigum skítnóg af peningum. Er hægt að breyta þessu?
Framundan hjá minni fjölskyldu er ferming yngri sonarins, ég ætti kannski að hafa tunnur við félagsheimilið svo fólk gæti barið í tunnur... yrði einhver ánægður með það? Ég bara spyr mig. Er þetta í alvöru það sem við viljum. Er þetta það sem landið okkar á að vera frægt fyrir? Ég allavega skammast mín fyrir ástandið sem verið er að básúna upp.