föstudagur, 19. september 2014
19.09.2014
Eins og stendur er Baldvin með blóðþrýstingsmælinn á sér. Er búinn að vera með síðan kl. 3 í gærdag og verður með til 3 í dag. Ég er búin að fá svar frá Sigurði Yngva um að það verði haft fljótlega samband við mig út af miltisnámi. Veit ekki hvenær fljótlega er, en það hlýtur bara að vera fljótlega:-). Ég er annars búin að vera að læra og læra með Baldvin en betur má ef duga skal. Hann er aðeins að fresta - já eða alveg heilmikið. Ég hefði kannski bara átt að verða kennari eftir allt. Held stundum að eina sem strákarnir hafi lært í skóla sé það sem ég hef kennt þeim (nei djók) en stundum finnst mér samt eins og þeir hafi bara verið að bora í nefið í skólanum - og þá er ég ekki að lasta kennarana heldur veit ég að það er erfitt að koma þeim að verki. Svo margt annað sem glepur hugann þegar maður er ungur og þægilegt að gera nauðsynlega hluti bara bráðum á eftir eða seinna!!! Ég hætti að vinna klukkan 12 í dag og það er bara dejligt. En annars væri ég hætt í þessum töluðum orðum því að ég hef verið að vinna til kl 13.00 alveg streit frá 8 sem er bara allt í lagi. Næ smá tíma fyrir mig áður en strákarnir steypast inn um dyrnard og hrista duglega upp í öllu. Ég veit ekki hvort ég get beðið Helgu um að taka blóðprufu á eftir þegar ég fer með Baldvin.. en ég ætla að athuga það hvort hún getur tekið hemóglóbínið. (án þess að panta tíma). Það eru líklega komnar 3 vikur síðan við vorum í reykjavík og síðasta blóðprufa var tekin. Æi það skiptir svosem engu máli hvernig þetta hemóglóbín er. Það er eitthvað blóð í mér. Ég sé ekki annað. En við fórum reyndar í Grafarkot í gær að sækja hana Sólu úr frumtamningu hjá Fanney. Hún er búin að vera í rúmar 4 vikur og orðin vel reiðfær. Ég hélt að hún yrði aldrei reiðhross.... en hún lofar bara góðu. Verður flott undir og svo er hún viljug segir tamningakonan. HMM.. jæja þá er þetta komið í bili.
mánudagur, 15. september 2014
15.09.2014
Var næstum búin að skrifa 2015 hérna í hausnum.... hver veit hvar maður verður þá :-)? Nú er stefnan tekin á hjartalækni með Valgeir. Maður er að sjúkdómsvæða alla í fjölskyldunni :-( Ég held stundum að ég sé að búa til problem. En allur er varinn góður. Síðasta helgi var gangnahelgin í Vatnsnesfjalli. Baldvin og Hannes fóru frá þessu heimili og jú reyndar Hugi líka og pabbi með 3 til reiðar. Og svo fékk Valgeir að hlaupa síðasta spölinn. Meira að segja ég stökk "stökk" haha út úr bílnum og nokkra metra upp í brekku. En það reyndar skilaði engu því rollan hljóp bara fram hjá okkur. Hannes segist vera hættur að fara í þessar göngur. það kemur í ljós eftir ár, hvað verður úr því. Ég fór á hestbak á föstudaginn og náði að rífa undan 2 skeifur. Þá er ég búin að ná að rífa 3 skeifur undan í haust. Eina undan Herjan og 2 undan Garp. Ég er aftur byrjuð á 3ja daga rúllunni 7,5-5-5mg og held að þetta sé að sleppa til. Ætla ekki í blóðprufu alveg strax. Sendi línu á Sigurð áðan til að athuga hvort hann gæti upplýst mig um stöðu beiðnar um skurðaðgerð. Verð eiginlega að fá að vita eitthvað sem fyrst, þar sem búið er að ákveða að skella sér til Glasgow um mánaðamótin okt, nóv. Þannig að það væri gott að vera annaðhvort búin að ná sér eða vera að fara í aðgerðina. En það kemur í ljós. Nú Baldvin er að fara í sólarhringsblóðþrýstingsmælingu á fimmtudaginn. Það er þá búið á föstudaginn. Allt að gerast eins og venjulega. Ég er alltaf í sjúkraþjálfun.... er búin að vera svo skrambi slæm í hægri upphandlegg, öxl og því svæði öllu. Er með stöðugan verk (já en ekki hvað) Var annars að byrja á lopapeysu á Baldvin... Hún verður mega flott:-) Síðan þyrfti ég að prjóna peysu á mig og Valgeir og Hannes. og svo ótalótal margt annað sem mig langar að gera. Poncho heilgalla buxur og bara name it!!!! Það reyndar prjónast ekki neitt á meðan ég sit hérna. Og það er líka svo ótal margt fleira sem ég þarf að gera en bara ýti alltaf á undan mér (fresta heitir það). T.d. taka saman læknisferðir til TR. -það er bara svoooooooleiðinlegt. Og svo er ótal margt annað í pípunum, en ég ætla ekkert að auglýsa það hérna svona í bili :-) Ower AND out elskur.
sunnudagur, 7. september 2014
07.09.2014
Nótt og vökutími. Var steinsofandi en hrökk upp kl.. 03.00 og er ennþá vakandi kl. 04.30. og hvað er þá betra en að hanga á netinu og háma í sig súkkulaði og allt annað ætilegt sem ég finn í húsinu. Já, síðan síðast......... hvað á ég að segja. Baldvin er í náminu og ég veit ekki alveg hvernig þetta mun ganga. En let´s just wait and see. Valgeir er líka í skólanum og það er hafinn undirbúningur fyrir samræmdu prófin sem hann fer í núna í sept lok í 7. bekk. Ég vildi að það væri hægt að mæla getu barna með öðru en prófum:-( Það er svo ansi margt sem menn eru góðir í en það er ekki mælt í skólum. En jæja. ég skil ekki alveg sjálf hvað ég er að skrifa. Við Hannes vorum í Galtarholti í dag að hjálpa til við að græja húsið. Alltaf gott að koma þangað, smá svona andleg upplyfting. En Hannes og Gummi eyddu deginum í að ná sér í jarðtenginu. Býst við að það stefni í marbletti og strengi á morgun. Hannes skellti sér reyndar á Kormáksslútt og svo réttarball á eftir og er bara ný kominn heim. Kannski að hann hafi náð að dansa úr sér mestu strengina, kemur í ljós. Ég er annars búin að fá út úr blóðprufunum sem ég fór í í Reykjavík 29.08.2014 en þá mældist hgl allt í einu 121 en það hafði verið 113 4 dögum fyrr og ég var ekki farin að breyta sterunum neitt. En ég vissi þessa tölu ekki fyrr en í fyrradag og þá voru komnir nokkrir dagar þar sem ég hafði breytt þriggja daga rúllunni aftur í 2 daga rúlluna þ.e. 7,5/5mg til skiptis. En Coomst prófið (DAT) segir að það sé ennþá blóðeyðing í gangi og stefnan er þar með tekin á miltisnám. Það er mín ákvörðun og hefur ekki verið létt og ég veit svosem ekki ennþá hvort ég er alveg ákveðin. En þó ég held bara að ég verði að prófa... kannski er það helber vitleysa. Kannski er betra að halda þessu líffæri sem lengst því að til einhvers er það????? En ef það er aðallega til trafala er þá ekki bara best að láta fjarlægja það. Ég ætti nú samt að halda lífi eins og aðrir sem ekki eru með milta. Ég er bara svo komin með upp í kok af þessu heilsuleysi, sleni, þreytu og stöðugu verkjum. Kannski er þetta samt ekkert tengt blóðleysinu en ég get þá allavega útilokað það og best af öllu yrði ef ég gæti alveg hætt á sterunum. Ég er komin með svo mikið ógeð á að þurfa að taka þessa litlu töflu sem veldur svona mikilli vanlíðan í kroppnum. Fitusöfnunin á bakinu og handleggjunum og maganum.... algert lystarleysi og ógeð á mat hárvöxtur þar sem ekki á að vera hár og háreyðing á öðrum stöðum þar sem á að vera hár.Engin framtakssemi eða löngun til að gera eitt eða neitt því það er svo erfitt... líkamlega og andlega. Að muna ekki neitt, að muna ekki eftir að hafa gert og sagt hluti bara síðan í gær er alveg ótrúlegt. Að geta ekki gengið nema á sléttu já og svona ýmislegt annað sem fylgir því að vera "aumingja" því í alvöru talað líður manni bara eins og AUMINGJA. Ég er samt að reyna að vera til staðar fyrir þá sem þarfnast mín en það væri gott ef ég hefði meiri orku til skiptanna. Jæja einu sinni enn er ég farin að vorkenna sjálfri mér og skrifa það hér inn. En svona inn á milli held ég að það væri bara ágætt fyrir aðila máls ef ég væri ekki hér. En anyway ég er það samt - allavega ennþá eða allavega hluti af mér því að ég er langt í frá sú sem ég vildi vera.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)