föstudagur, 7. júní 2013

Síðustu 4 vikur

Hvað skal segja. Í dag eru komnar 4 vikur 4x7 dagar síðan ég skrapp aðeins til læknis....... það varð aðeins meira en að skreppa í þetta sinnið. Það kom í ljós að ég var orðin mjög blóðlítil og var því senda á sjúkrahúsið á Akranesi (Hannes minn mátti keyra). Þar var talað um að ég þyrfti að fá blóðgjöf til að hressa mig við og koma búskapnum í lag. En enn þann dag í dag er ég ekki farin að fá þessa blóðgjöf og fæ að öllum líkindum ekki. Ég beið allan laugardaginn á Akranesi eftir blóðinu og allir voru að tala um að þetta hlyti nú að fara að koma en það eina sem í ljós kom var að blóðið mitt blandaðist ekki öðru blóði (þó í mínum blóðflokki væri) nógu vel og já jafnvel eyddi bara blóðinu sem það var verið að blanda því saman við. Nú ég fékk að vera á Akranesi fram á mánudag og var síðasta verk læknanna þar að taka úr mér mergsýni til að leita eftir einhverju sem mögulega gæti verið að og auðvitað að skýringu fyrir því af hverju blóðið mitt væri búið að minnka svona í líkamanum því að ég hef ekki verið með blæðingar af einu eða neinu tagi hvorki innan eða utan líkamans. Já og í farteskinu hafði ég lyfseðil fyrir steralyfi í stórum skammti sem var ráð frá blóðmeinafræðingi á Landsspítalanum. Lyfið var ekki til á Akranesi, ekki Borgarnesi og ekki Hvammstanga svo að við keyrðum til Mosfellsbæjar til að sækja "blessaða" sterana. Nú steragjöf hófst á þriðjudeginum og ég var bara nokkuð hress þá vikuna ef svo má segja. Á föstudeginum fórum við svo til R-víkur og hittum hann Sigurð blóðmeinasérfræðing sem gat frætt okkur á því að ég er með sjálfsónæmissjúkdóm "warm auto immune hemalytic anemae" WAIHA sem greinist í ca 1 af hverjum 80.000 á ári (og þá ekki endilega hér á Íslandi). En það sem gerist þar, er eða að því er virðist í mínu tilviki að blóðrauðanum er eytt í miltanu. Í þessum sjálfsónæmissjúkdómi WAIHA þekkist það alveg að það virðist ekki vera neinn undirliggjandi sjúkdómur (og enn þann dag í dag finnst ekki neitt hjá mér sem bendir til þess sbr mergtaka, lungnaröntgen og sneiðmynd) en það er algengara að það finnist einhver undirliggjandi sjúkdómur sem er þá undirorsök fyrir þessari hegðun líkamans. Nú ég fer í blóðprufur reglulega enn sem komið er og blóðið mitt hefur aukist um ca 1 ltr (og hvern munar ekki um það) síðustu 4 vikur. En að sama skapi hef ég getað minnkað sterainntökuna á móti.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli