föstudagur, 12. maí 2017
12.05.2017
Hef aðeins verið að velta þessu bloggi fyrir mér... En ætla að láta það standa. Gæti verið góð heimild fyrir mig seinna meir;-) En í vetur er ég búin að vera í fjarnámi í einu fagi frá FNV. Byrjaði í tveimur, en satt best að segja gafst upp á öðru þeirra. Kannski verður það til þess að ég næ ekki blessaðri húfunni.. en það verður þá að hafa það. Ég var semsagt að klára núna áðan próf í sögu.. verð að segja að það er ekki mitt uppáhaldsfag. Er bara búið að ganga vel í vetur og með fínar einkunnir yfir veturinn. Var rosa stressuð fyrir prófinu og fannst ég ekki kunna neitt, en held að ég hafi samt skriðið yfir 4,5 í lokaprófinu þannig að það er þá staðið. Nú er ég farin að hugsa um næsta áfanga og það í sumarskóla. Eina sem ég hef fundið að sé kennt í fjarnámi í sumar er sálfræði frá FA og ég held að ég skrái mig bara í það að gamni. Var samt í alvöru að velta því fyrir mér í prófinu áðan af hverju í ósköpunum ég væri eiginlega að þessu dútli (STRESSI)... Sem að sjálfsögðu eins og annað, bitnar á mínum nánustu og tímanum sem ég væri líklega annars að eyða með þeim. Mér finnst þetta samt bara pínu gaman, eða meira en það, mér finnst þetta gaman!!! Að opna hugann og sjóndeildarhringinn og fræðast. En líka að fatta að það er heilmikið sem maður veit og kann þrátt fyrir að hafa ekki klárað skólann á sínum tíma. Og að skilja að það er í lagi að allir klári ekki skóla fyrir 20 ára aldur. það er bara aldrei of seint að læra. (verra með að taka prófin). Það er gott að læra, það heldur manni við efnið o.s.frv. Maður setur hlutina í samhengi. Stundum fæ ég líka flog yfir því að mig langi í háskóla... En ég er að vinna í að sannfæra mig um að það sé ekki nauðsynlegt. Enda þegar upp er staðið, hvað er nauðsynlegt? Hefur maður ekki allt til alls. Fólkið sitt, húsnæði, mat, vinnu já og heilsu ekki má gleyma því. Ég man ekki hvort ég var búin að setja inn síðustu mælingu á hemógl. en skv. síðustu upplýsingum þá var talan 128 og gott ef það er ekki bara hæsta tala sem ég hef náð í 4 ár. klapp fyrir því. Ég er bara þakklát. Það er gott að vera þakklátur !!! Ég man eftir að hafa hugsað (og kannski skrifað hér) að ég var ekki á sínum tíma þakklát fyrir að hafa veikst. Ég var bara alls ekki þakklát. Mér fannst þetta ekki réttlátt. Já, af hverju ég? spurði ég mig. En , af hverju ekki ég? Ég hef allavega lært helling, alveg heilan helling. Kannski mest þakklæti. Ég er ekki besti námsmaðurinn í að læra af lífinu, en það kemur. LÍFIÐ ER NÚNA!!!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli