fimmtudagur, 3. mars 2016
03.03.2016
Fljótlegt er að koma sér inn í hinar og þessar aðstæðurnar sem geta verið stressaukandi. Það er kannski ekki það réttasta fyrir mig að gera, en það getur samt verið gaman og hreinlega merki um að maður sé jú lifandi. Ég er alveg að halda hemóglóbíninu á réttu róli. Búin að fara í mælingu núna í lok febr. og var 128 sem er held ég sama tala og ég var í janúar. Sú tala er bara akkúrat það sem meðal Jón á að vera með. En konur eiga að vera á milli 120 og 140. Ég er aðeins að minnka sterana og er komin í 3,75/3,75/2,5 í 3ja daga rúllu. Ég stefni á að fara að breyta í 3,75/2,5/2,5 á næstu dögum og taka þeim afeitrunareinkennum sem þá munu koma fram. Ég finn ótrúlega fyrir þessari litlu breytingu og ég held að læknum finnist ég taka þessu frekar rólega og í raun ætti ég að geta hreinlega hætt með litlum fyrirvara. En ég þori hreinlega ekki að taka of mikil stökk í lækkuninni af því að ég vil ekki sjokkera líkamann það mikið að hann fari aftur í gang með hemólýsuna. Það er staður sem ég vil ekki lenda á aftur. Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég þyrfti að fara aftur að taka 75mg af sterum eða hvað sem það gæti hljóðað uppá. Þannig að ég ætla bara að halda þessu áfram. Kannski næ ég að hætta á sterunum á þessu ári, kannski á næsta en ef ég bara get haldið svona áfram þá er ég sátt. Það kemur vonandi að því að ég næ að HÆTTA. Ég er annars að baka marengs fyrir messu á sunnudaginn. Fermingarbörn bjóða upp á messukaffið. Ég veit ekki hvernig botnarnir takast en þeir verða væntanlega góðir á bragðið þegar á þá er kominn rjómi og súkkulaði :-). Svo er stefna á útskriftarsýningu annað kvöld hjá Fríðu Marý. En hún er langt komin með hárnámið sitt. Svo stolt af henni:-). Ég kom mér svo í kvennahóp sem er að æfa fyrir hestasýningu sem verður um miðjan mars. Það verður eitthvað!!! Jú og svo ætlum við að skella okkur í sumarbústað um næstu helgi fjölskyldan. Ég hlakka mikið til. En reikna með því að á einhverjum tímapunkti dvalarinnar eigum við von á því að einhver vilji fara heim eða langi ekki til að vera á staðnum a.m.k. En svona er lífið. Eftirá og seinna verður þetta ógleymanleg ferð. Enda breyttist líf okkar ansi mikið þegar ég varð veik. Ég hef aðeins verið að hugsa hvað allt varð í raun og veru sjúkt. Það var svo margt sem varð erfitt og ekki hægt að gera og ég held að strákarnir og auðvitað eiginmaðurinn hafi lent í aðstæðum sem erfitt er að lýsa nema fyrir þann sem hefur verið þarna. En útilegur og fleira varð hreinlega að lúta í lægra haldi af því að ég gat ekki verið til staðar. En svona er þetta og vonandi er þessum kafla lífs okkar lokið. Þá er best að halda áfram þar sem maður var kominn í lífinu og gera það besta úr stöðunni eins og hún er í dag. Njóta lífsins eins og það er og hafa gaman. Ekki geyma að gera til morguns það sem maður getur gert í dag af því að maður veit ekki hvað morgundagurinn hefur uppá að bjóða!!!!!
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)